Löw: Getum verið lengi á toppnum

Joachim Löw á fréttamannafundinum í gær.
Joachim Löw á fréttamannafundinum í gær. AFP

Joachim Löw, landsliðsþjálfari Þjóðverja í knattspyrnu, segir að lið sitt geti skrifað nýjan kafla í sögu íþróttarinnar, með því að hreppa heimsmeistaratitilinn í kvöld og vera á toppnum næstu árin.

Úrslitaleikur Þýskalands og Argentínu hefst á Maracana-leikvanginum í Ríó de Janeiro klukkan 19 í kvöld en þar freista Þjóðverjar þess að vinna titilinn í fjórða sinn, og í það fyrsta sinn síðan þeir lögðu Argentínu í úrslitaleik HM á Ítalíu árið 1990.

„Við eigum unga leikmenn sem eru ekki einu sinni í hópnum núna og aðra sem eiga enn frábæra framtíð fyrir höndum eins og Ilkay Gündogan, Marco Reus, Mesut Özil, André Schürrle og Thomas Müller. Þeir geta verið lykilmenn okkar árum saman. Við getum verið á heimstoppnum um langt árabil og síðan tekið smám saman inn yngri leikmenn til að styrkja liðið enn frekar,“ sagði Löw á fréttamannafundi í Ríó.

Löw kveðst þess fullviss að sitt lið geti orðið fyrsta Evrópuliðið til að fagna heimsmeistaratitlinum í Suður-Ameríku.

„Við vitum að við getum skrifað nýjan kafla í fótboltasöguna. Til þessa hefur það aldrei gerst. Suður-Ameríkumenn hafa alltaf reynst sterkari þegar spilað hefur verið í þessari heimsálfu. Hvers vegna ekki? Það yrði enn ánægjulegra fyrir okkur að fagna titlinum sem Evrópubúar í Suður-Ameríku,“ sagði Löw.

Hann kvaðst ekki óttast Lionel Messi, sem freistar þess að leika sama leik og Diego Maradona gerði árið 1986 þegar hann fór fyrir liði Argentínu sem vann Vestur-Þýskaland 3:2 í úrslitaleik í Mexíkó.

„Við höfum ekkert að óttast. Ég veit að þetta er slagur tveggja þjóða sem hafa mæst í mögnuðum leikjum á árum áður, á stórmótum og í vináttuleikjum. Lið Argentínu snýst ekki bara um Messi. Ef ég héldi það væri ég á villigötum. Þeir eiga Ángel di María, Sergio Agüero, Gonzalo Higuaín - þetta lið treystir ekki bara á Messi. Hann er leikmaður sem getur unnið leiki, en þeirra lið er betur skipulagt núna en þegar við unnum þá 4:0 í átta liða úrslitunum árið 2010. Það hafa þeir sýnt í öllum leikjum í keppninni.

Ég held að þetta verði magnaður úrslitaleikur sem einkennist af gríðarlegri baráttu beggja liða. Leikur okkar við Brasilíu verður ekki endurtekinn. Sá sem heldur það hefur ekki fylgst með liði Argentínu. Nú mætast tvö lið sem eru mjög jöfn að getu. Við höfum fulla trú á sjálfum okkur, berum virðingu fyrir styrk móterjanna, en erum sannfærðir að ef við getum spilað okkar leik munum við sigra,“ sagði Joachim Löw.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert