Vonar að United líkist hollenska liðinu

Louis van Gaal með sínum mönnum eftir sigurinn á Brasilíu …
Louis van Gaal með sínum mönnum eftir sigurinn á Brasilíu í gærkvöld. AFP

Louis van Gaal mætir í nýja vinnu sem knattspyrnustjóri Manchester United í næstu viku og segir að ef samskonar liðsheild verði þar að finna og hjá hollenska landsliðinu á HM, þá hafi hann engu að kvíða.

Holland sigraði Brasilíu, 3:0, í leiknum um bronsverðlaunin á HM í gærkvöld og hollenska liðið fór ósigrað heim af heimsmeistaramótinu en tapaði aðeins í vítaspyrnukeppni gegn Argentínumönnum.

„Ég vona að hópurinn í Manchester verði líkur þessum hópi. Þar verða allir að vera á sömu blaðsíðunni,“ sagði van Gaal, sem fer með lið Manchester United í æfingaferð til Bandaríkjanna síðar í þessum mánuði. Fyrsti leikur hans á Old Trafford verður æfingaleikur við Valencia 12. ágúst, skömmu áður en úrvalsdeildin hefst.

„Þessir 23 leikmenn og starfslið hollenska landsliðsins munu ávallt eiga stað í hjarta mínu. Ég er með frábært starfslið og leikmennirnir voru jafnvel enn betri. Þetta var magnaður hópur. Nú vona ég að Manchester United verði á svipuðum nótum. Ég mun gera mitt besta þar en hvort það verður nóg fyrir stuðningsmenn félagsins kemur í ljós. Ég vona svo sannarlega að svo verði,“ sagði van Gaal við fréttamenn í Brasilíuborg í gærkvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert