Held að taktíkin hafi ekki verið röng

Heimir Hallgrímsson íbygginn á leik Íslands og Nígeríu í Volgograd …
Heimir Hallgrímsson íbygginn á leik Íslands og Nígeríu í Volgograd í dag. AFP

„Hræðilega ólíkir sjálfum sér á hvaða hátt?“ sagði Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari pirraður þegar hann svaraði fyrstu spurningu á blaðamannafundi eftir 2:0-tapið gegn Nígeríu á HM í knattspyrnu í kvöld.

Fyrsta spurning var um það hvers vegna leikmenn íslenska liðsins hefðu verið svo ólíkir sjálfum sér í leiknum, eins og blaðamaðurinn orðaði það, en Heimir virtist ekkert sérstaklega til í að taka undir það:

„Hann segir að við höfum verið hægir og þreyttir,“ sagði Heimir. „Þetta var ekki okkar besti leikur, ég er tilbúinn að taka undir það. Mér fannst hins vegar allir reyna sitt besta. Hluti af skýringunni getur verið hiti, Argentínuleikurinn tók mikið á okkur, og það sem mestu skiptir er að Nígería spilaði þennan leik gríðarlega vel. Þeir voru erfiðir við að eiga í dag. En ég skal alveg viðurkenna að við höfum oft átt betri leiki heldur en í dag,“ sagði Heimir.

Vorum mjög sáttir í hálfleik

„Ég held að við höfum verið þokkalega tilbúnir í þennan leik, og fyrri hálfleikur spilaðist eins og við vildum. Við vorum mjög sáttir með 0:0. Það sem skiptir máli er þetta fyrra mark sem Nígería skorar. Það að þeir væru marki yfir breytti leikmyndinni. Við þurftum að fara framar, taka áhættur og þeir eru mjög gott skyndisóknalið. Þeir skoruðu tvö mörk eftir skyndisóknir. Mér fannst þeir spila vel úr þeirri stöðu að komast í 1:0. Auðvitað hefðum við ekki viljað lenda undir eftir okkar eigið innkast,“ sagði Heimir.

Ahmed Musa reyndist íslenska liðinu afar erfiður í kvöld.
Ahmed Musa reyndist íslenska liðinu afar erfiður í kvöld. AFP

Voru það mistök að breyta um taktík, og hafa tvo framherja í þessum leik, og af hverju hafa föst leikatriði ekki skilað Íslandi meiru á mótinu?

„Ég held að taktíkin hafi ekki verið röng. Við vorum kannski svolítið ólíkir sjálfum okkur, svolítið bitlausir, en ég held að taktíkin hafi ekki verið röng. Mér fannst við nú vera hættulegir í föstum leikatriðum, en við tökum ekki af Nígeríumönnum að þeir eru með virkilega góða leikmenn í föstum leikatriðum. Þeir hafa gert mistök áður en gerðu mjög vel í dag,“ sagði Heimir.

Þurfum bara að vinna Króatíu

Kom eitthvað á óvart við Nígeríu, til að mynda það að liðið notaði þriggja manna vörn í stað fjögurra manna?

„Við bjuggumst við þriggja manna vörn, en vorum búnir undir bæði. Þeir beittu skyndisóknum mjög vel og voru alltaf á undan í seinni boltann. Við vissum að þetta væru þeirra styrkleikar. Ég vil bara hrósa Nígeríu fyrir það hvernig liðið spilaði, og hvað Rohr hefur gert frábærlega vel með liðið,“ sagði Heimir.

Staðan í riðlinum er nú þannig að liðin fjögur eiga öll möguleika fyrir lokaumferðina á þriðjudag:

Vonbrigði Íslendinga leyndu sér ekki í leikslok, eins og Björn …
Vonbrigði Íslendinga leyndu sér ekki í leikslok, eins og Björn Bergmann Sigurðarson undirstrikar. AFP

„Já, það er kannski skrýtið að við séum enn með í kapphlaupinu. Við bjuggumst ekki við að fara í gegnum HM án taps, en það er alltaf erfitt að sætta sig við það. Við þurfum bara að vinna Króatíu, sem er kannski auðveldara sagt en gert. Strákarnir reyndu að sækja allt til loka leiksins en þetta var bara ekki okkar dagur, á svo margan hátt,“ sagði Heimir. Ísland þarfa að vinna Króatíu á þriðjudag og treysta á að Argentína vinni Nígeríu, þó ekki með stærri mun.

„Við höfum spilað gegn Króötum fjórum sinnum á síðustu árum, og erum eins og hjón sem eru alltaf að skilja en taka saman aftur. Þetta er vanalega stál í stál og lítið um færi en mikið af gulum spjöldum, og rauðum. Við vitum hvernig leikur þetta verður, og Króatía hefur sýnt hversu svakalegt lið það er. Leikurinn í gær sýndi hversu gott lið Króatía er, en það gaf okkur líka sjálfstraust að hugsa til þess að við enduðum fyrir ofan þá í undankeppninni,“ sagði Heimir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert