Ísland úr leik á HM

Hetjuleg barátta fram að lokaflauti dugði Íslandi ekki til gegn Króatíu í lokaumferð D-riðils HM karla í knattspyrnu í Rostov í kvöld. Gríðarleg spenna var í leiknum nánast til enda en Króatía vann að lokum 2:1-sigur.

Ísland er því úr leik á sínu fyrsta heimsmeistaramóti en liðið hefði þurft sigur til að komast áfram í 16-liða úrslitin. Króatía vann alla leiki sína í riðlinum og endaði með 9 stig. Argentína náði 2. sæti með 2:1-sigri á Nígeríu, en þau úrslit þýða að Íslandi hefði dugað eins marks sigur á Króötum í kvöld. Nígería varð í 3. sæti riðilsins með þrjú stig en Ísland endaði neðst með eitt stig.

Íslenska liðið lék frábærlega á löngum köflum í kvöld, og komst afar nálægt því að ná forystunni í fyrri hálfleiknum. Sverrir Ingi Ingason, sem kom óvænt inn í byrjunarliðið fyrir Kára Árnason, og Ragnar Sigurðsson léku af öryggi í hjarta varnarinnar á sínum heimavelli hér í Rostov. Króatar, sem tefldu fram hálfgerðu varaliði en þó með fyrirliðann Luka Modric og Ivan Perisic innanborðs, héldu boltanum betur fyrstu mínúturnar en eftir því sem á leið fyrri hálfleik fékk Ísland betri og betri tækifæri á að skora.

Nokkrum sinnum vantaði aðeins úrslitasendinguna til að Alfreð, Gylfi eða Birkir Bjarnason væri kominn einn gegn markverði. Hörður átti tvo ágæta skalla, og á lokamínútum fyrri hálfleiks átti Alfreð hættulegt skot rétt fram hjá marki Króata, Birkir skot sem var naumlega varið og Aron skot sem Lovre Kalinic í marki Króatíu náði að slá í horn. Króatar reyndu ekkert á Hannes í marki Íslands en Íslendingar skoruðu ekki heldur svo staðan var markalaus í hálfleik.

Króatar komust yfir snemma í seinni hálfleik með marki Milan Badelj, sem skoraði úr teignum eftir sendingu Josip Pivaric sem hafði unnið boltann nærri vítateig Íslands. Ísland náði að jafna metin þegar enn var kortér eftir af leiknum en Gylfi Þór Sigurðsson skoraði þá af öryggi úr vítaspyrnu, sem hann fiskaði sjálfur. Ísland tók svo áhættu í sínum leik, skipti sóknarmönnum inn á og freistaði þess að ná í sigurinn sem liðið þurfti. Þess í stað skoraði Ivan Perisic á 90. mínútu og tryggði Króötum sigur.

Íslenska liðið má vera afar stolt af því hvernig það lék í þessum lokaleik og skildi við sitt fyrsta heimsmeistaramót. Nú er þessu ævintýri lokið og hópurinn heldur heimleiðis á morgun. Ný ævintýri bíða og næsta verkefni þessa liðs er keppni í Þjóðadeild UEFA í haust.

Viðtöl við þjálfara og leikmenn koma inn hér á mbl.is von bráðar og fjallað verður ítarlega um leikinn í Morgunblaðinu í fyrramálið.

Ísland 1:2 Króatía opna loka
90. mín. Ivan Perišić (Króatía) skorar 1:2 - Þar fór það. Ísland missir boltann á eigin vallarhelmingi og Perisic kemst einn gegn Hannesi, í gott færi, og skorar þó að Hannes nái að koma hönd í boltann.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert