Mikil eftirvænting hjá handboltalandsliðinu

Eftir Ívar Benediktsson í Hamborg
Mikil eftirvænting er nú bæði í herbúðum íslenska handboltalandsliðsins og hjá fjölmörgum Íslendingum sem komnir eru til Hamborgar, til að fylgjast með leiknum gegn Danmörku í kvöld í átta liða úrslitum HM í handknattleik sem hefst kl. 19. Landsliðið kemst í undanúrslit mótsins nái það að sigra Dani í kvöld, en íslenskt handboltalandslið hefur aldrei komist svo langt á heimsmeistaramóti.

Einbeiting skein úr andlitum íslensku landsliðsmannanna og þjálfara á æfingu þeirra á leiktstað síðdegis í gær og var þar vel tekið á því í rúma klukkustund. Stutt var í léttleikann þó svo menn virtust meðvitaðir um mikilvægi leikjarins í kvöld. Farið var yfir helstu leikkerfi liðsins og reynt að fínpússa þau eftir bestu getu.

Róbert Gunnarsson tók ekki þátt í æfingunni þar sem hann fór í myndatöku vegna gruns um kjálkabrot eftir viðureignina við Þjóðverja á sunnudag. Svo reyndist ekki vera og leikur Róbert því með gegn Dönum og líka Ásgeir Örn Hallgrímsson sem glímdi við lítilsháttar hitavellu í gær. Roland Eradze markvörður fékk ofnæmi um helgina og verður líklega ekki með í leiknum í kvöld.

Fjölmargir Íslendingar eru í Hamborg, flestir þeirra hafa ekki fengið miða á leikinn þar sem löngu er orðið uppselt á hann. Vonir manna um að komast yfir miða hafa glæðst eftir því sem liðið hefur á daginn en í gærkvöldi virtust líkur litlar á því að hægt yrði að kaupa miða. Orðrómur er um að Spánverjar hafi reiknað með að leika í Hamborg og því verið búnir að kaupa mikinn fjölda miða sem þeir eru nú að reyna að koma frá sér aftur, nú þegar ljóst er að landslið þeirra leikur í 8-liða úrslitum við gestgjafa Þjóðverja í Köln nú síðdegis. Talið er að mörg þúsund Danir séu komnir til Hamborgar og flestir án miða á leikinn.

Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari sagði í samtali við fréttavef Morgunblaðsins, eftir æfingu íslenska landsliðsins í gær, að hann reikni með jöfnum og spennandi leik og að úrslitin geti ráðist af góðri vörn og markvörslu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert