Dagur í sjöunda himni

Dagur Sigurðsson á hliðarlínunni í leik Þjóðverja og Egypta í …
Dagur Sigurðsson á hliðarlínunni í leik Þjóðverja og Egypta í dag. mbl.is/Golli

„Ég er mjög ánægður með yfirvegunina, vörnina og markvörsluna í þessum leik," sagði Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Þýskalands, eftir að lið hans tryggði sér sæti í 8-liða úrslitum heimsmeistaramótsins í handknattleik í Luseil í Katar rétt áðan. Þýska liðið vann það egypska, 23:16, eftir að vera fjórum mörkum yfir í hálfleik, 12:8.

„Okkur tókst að halda Egyptunum í skefjum allan leikinn, leyfðum þeir aldrei að ná upp stemningu. Það var mikilvægt," sagði Dagur í samtali við íslenska fjölmiðlamenn þegar hann gekk af leikvelli. 

Dagur hrósaði mjög markverði sínum Carsten Lichtlein en hann fór á kostum í markinu og varði um 20 skot. „Það er afar mikilvægt að fá svona góða markvörslu til þess að létta pressu af liðinu."

Spurður hvort ekki væri ljóst að hann væri að fara langt með þýska liðið á heimsmeistaramótinu svaraði Dagur léttur í bragði og glotti við tönn: „Ég veit það ekki."

Þýska landsliðið mætir landsliði Katar í 8-liða úrslitum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert