Getur Ísland komist á ÓL í Ríó?

Strákarnir í íslenska landsliðinu eiga afskaplega erfitt verk fyrir höndum …
Strákarnir í íslenska landsliðinu eiga afskaplega erfitt verk fyrir höndum ætli þeir að komast á Ólympíuleikana í Ríó. Möguleikinn er engu að síður til staðar. mbl.is/Golli

Vonir íslenska karlalandsliðsins í handbolta um að komast á Ólympíuleikana í Ríó 2016 minnkuðu til muna við tapið gegn Danmörku á HM í kvöld. Enn er þó mögulegt að strákarnir okkar verði með á fjórðu Ólympíuleikunum í röð.

Sætunum 12 sem í boði eru á Ólympíuleikunum er úthlutað eftir ákveðnum reglum. Brasilía fær eitt sæti sem gestgjafi, sigurvegari HM í Katar fær eitt sæti, og sigurvegarar næsta Evrópumóts, Asíumóts, Afríkumóts og Ameríkumóts fá eitt sæti hver um sig.

Eftir standa sex laus sæti sem leikið er um í sérstakri undankeppni. Tólf lið leika í þeirri undankeppni, í þremur fjögurra liða riðlum þar sem tvö lið komast upp úr hverjum riðli. Ísland þarf að verða Evrópumeistari eða komast í þessa undankeppni til að geta komist til Ríó.

Nú fara hlutirnir að flækjast aðeins. Hvað þarf til að komast í undankeppnina?

A) Liðin í 2.-7. sæti á HM í Katar komast öll í undankeppnina.
B) Tvö efstu liðin á EM í janúar á næsta ári, sem ekki komust í undankeppnina með því að lenda í 2.-7. sæti á HM, fá sæti í undankeppninni. Í þessu felst von Íslands.
C) Fjögur lið úr öðrum álfukeppnum komast í undankeppnina.

Ísland þarf því sem sagt að ná í annað af þeim tveimur sætum sem í boði verða á EM í Póllandi að ári. Liðið mætti lenda fyrir neðan þau lið sem hafa tryggt sig inn í undankeppnina með árangri á HM í Katar, sem ætla má að verði margar bestu þjóðanna, eins og Danmörk, Frakkland, Spánn og fleiri. Best væri fyrir Ísland að Katar, sem eina þjóðin utan Evrópu enn á HM, lendi í 8. sæti og komist ekki í ÓL-undankeppnina.

Hafa verður í huga að Ísland er ekki einu sinni búið að tryggja sig inn á EM, og er raunar í erfiðum riðli með Serbíu, Svartfjallalandi og Ísrael. Næsti leikur í riðlinum er í Laugardalshöll gegn Serbíu í lok apríl. Komist Ísland á EM má ætla að baráttan um að komast í ÓL-undankeppnina verði við þjóðir á borð við Svía, Norðmenn, Rússa, Makedóníumenn og Tékka.

Uppskriftin að því að komast á ÓL í Ríó er því eftirfarandi:

1) Komast í lokakeppni EM sem fram fer í Póllandi í janúar að ári.
2) Ná öðru af þeim tveimur sætum sem í boði verða á EM, fyrir undankeppni Ólympíuleikanna. Ísland þyrfti ekki að enda fyrir ofan þær Evrópuþjóðir sem verða í 1.-7. sæti á HM í Katar.
3) Komast áfram úr ÓL-undankeppninni í apríl á næsta ári, þar sem Ísland yrði meðal annars í riðli með liðunum sem lenda í 4. og 5. sæti á HM í Katar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert