Óli Stef helsta fyrirmynd Dananna

Leikmenn danska landsliðsins hafa mikið álit á Ólafi Stefánssyni.
Leikmenn danska landsliðsins hafa mikið álit á Ólafi Stefánssyni. mbl.is/Ómar

Stefan Lövgren, Ivano Balic og Eddie Murphy eru á meðal þeirra átrúnaðargoða sem leikmenn danska landsliðsins í handknattleik, sem sló Ísland út á HM í Katar í gær, hafa átt í gegnum tíðina.

Vefmiðill dönsku sjónvarpsstöðvarinnar TV2 tók saman yfirlit yfir það hvaða fyrirmyndir lærisveinar Guðmundar Guðmundssonar hefðu haft á sínum yngri árum. Algengasta svarið var Ólafur Stefánsson. Þeir Mads Christiansen, Bo Spellerberg og Kasper Söndergaard sögðust allir hafa litið helst upp til Ólafs, sem óhætt er að segja að sé lifandi goðsögn í handboltaheiminum.

„Hann var með virkilega forvitnilegan handboltaheila, og spilaði í sömu stöðu og ég,“ sagði Christiansen þegar hann rökstuddi svarið sitt.

Flestir dönsku leikmannanna nefndu gamlar handboltastjörnur en svar markvarðarins Niklas Landin var óhefðbundnara:

„Ég hef aldrei haft einhverja eina fyrirmynd. Það hafa verið nokkrir ólíkir en enginn einn sem ég hef litið af alvöru upp til. Ég hef haft Kobe Bryant í körfuboltanum og Eddie Murphy í leiklistarheiminum, en aldrei einhvern handboltamann,“ sagði Landin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert