Tek aldrei undir í þjóðsöngnum

„Ég viðurkenni að það var þungu fargi af mér létt eftir leikinn í gærkvöldi. Það var ekki auðvelt hlutskipti fyrir mig að vera þjálfari annarrar þjóðar gegn Íslendingum,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari Dana í handknattleik karla, þegar hann hitti mbl.is í morgun á Hilton hótelinu í Doha í Katar, 12 tímum eftir að danska landsliðið sló það íslenska úr keppni á heimsmeistaramótinu með fimm marka sigri, 30:25.

„Ég bjó mig vel undir leikinn og bægði öllum hugsunum um land og þjóð frá mér, einbeitti mér eingöngu að því að búa mitt lið sem best undir leik á heimsmeistaramóti. Þá er hugsunin eingöngu um leikinn sem slíkan, leikaðferðir, vörn og sókn,“ sagði Guðmundur Þórður sem gaf ekki kost á sér í viðtöl sólarhring fyrir viðureignina við Ísland til þess að geta einbeitt sér að leiknum.

Guðmundur segist ekki hafa tekið undir þegar þjóðsöngur Íslands var leikinn fyrir viðureignina í gærkvöldi. Hann hafi aldrei sungið með þegar hann var landsliðsmaður og síðar landsliðsþjálfari Íslands. „Maður sýnir bara tilhlýðilega virðingu þegar þjóðsöngurinn er leikinn.“

Guðmundur segist vera afar ánægður með leik sinna manna fyrstu 50 mínútur leiksins. „Okkur tókst að loka fyrir allar hlaupaleiðir íslensku leikmannanna. Við vorum þéttir í vörninni og markvarslan var mjög góð. Áætlun okkar var að hlaupa eins mörg hraðaupphlaup og kostur var og það gekk upp. Við skoruðum átta af fyrstu tíu mörkum okkar í leiknum eftir hraðaupphlaup. Það var mikils virði fyrir okkur og lagði grunn að sigri okkar.“

Guðmundur segir aðspurður að menn í kringum íslenska landsliðið þurfi að skoða hvað veldur því að upphafskafli flestra leikja liðsins á HM hafi verið mislukkaður. „Þetta er helsti ljóður á leik liðsins í keppninni, að mínu mati. Mér finnst íslenska liðið hafa verið mjög vel spilandi í þessu móti. Taktíkin sem lögð hefur verið til fyrirmyndar,“ segir Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari Dana.

Nánar er rætt við Guðmundur Þórð á meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert