Danir ekki búnir að gleyma niðurlægingunni

Mikkel Hansen og samherjar hans í danska landsliðinu mæta heimsmeisturum …
Mikkel Hansen og samherjar hans í danska landsliðinu mæta heimsmeisturum Spánverja í Katar í kvöld. EPA

Danir eru ekki búnir að gleyma niðurlægingunni sem þeir urðu fyrir þegar þeir mættu Spánverjum í úrslitaleiknum á HM í handknattleik í Barcelona fyrir tveimur árum en þjóðirnar eigast við í átta liða úrslitunum á HM í Katar í kvöld.

Í úrslitaleiknum á HM árið 2013 voru Danir teknir teknir í kennslustund en Spánverjar hreinlega rúlluðu yfir danska liðið og fögnuðu stórsigri, 35:19.

En Danir náðu fram hefndum á Evrópumótinu í Danmörku fyrir ári síðan þegar þeir mættu Spánverjum í milliriðlinum. Danir höfðu þá betur, 31:28, í Jyske Bank Boxen í Herning.

Spánverjar eru taldir sigurstranglegri aðilinn í kvöld en heimsmeistararnir hafa unnið alla sex leiki sína í keppninni til þessa. Danir hafa unnið fjóra leiki og gert tvö jafntefli en strákarnir hans Guðmundar Guðmundssonar hafa sótt í sig veðrið jafnt og þétt og sigurleikirnir á móti Íslendingum og Pólverjum í síðustu tveimur leikjum ættu að veita Dönum gott sjálfstraust fyrir slaginn í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert