Meistararnir felldu Guðmund

Heimsmeistarar Spánar eru komnir áfram í undanúrslit á HM í handbolta í Katar eftir æsispennandi leik gegn lærisveinum Guðmundar Guðmundssonar í danska landsliðinu. Joan Canellas skoraði sigurmarkið í blálokin.

Leikurinn var hnífjafn og spennandi allan tímann, þveröfugt við úrslitaleikinn á Spáni fyrir tveimur árum þegar þessi sömu lið mættust og Spánn vann stórsigur.

Staðan var 11:11 í hálfleik í kvöld en Danir hófu seinni hálfleik betur. Spánverjar skoruðu hins vegar fjögur mörk í röð og komust í 20:18 korteri fyrir leikslok. Munurinn varð aldrei meiri en 1-2 mörk og Mads Mensah virtist vera að tryggja Dönum framlengingu þegar hann jafnaði metin í 24:24 aðeins 20 sekúndum fyrir leikslok. Sá tími dugði Spánverjum hins vegar til að skora sigurmark.

Spánn mætir Frakklandi í undanúrslitunum en Guðmundur og hans menn þurfa að gera sér að góðu að reyna að ná 5. sæti.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is:

60. Leik lokið. (24:25) Joan Canellas skorar eftir gott kerfi í þann mund sem leiktíminn klárast. Heimsmeistarar Spánar halda áfram.

60. (24:24) Mads Mensah jafnaði metin upp á sitt einsdæmi. Nákvæmlega 19 sekúndur eftir og Spánverjar taka leikhlé.

60. (23:24) Rivera með mark af línunni.

59. (23:23) Ein og hálf mínúta eftir. Mikkel Hansen átti skot sem var varið og Spánverjar sækja nú.

58. (23:23) Tvær og hálf mínúta eftir og staðan er jöfn. Danir með boltann. Guðmundur tekur leikhlé og messar yfir sínum mönnum fyrir lokaátökin.

55. (23:22) Toft Hansen bræðurnir unnu boltann og Hans Óttar Lindberg skoraði úr hraðaupphlaupi. Danir komnir yfir.

54. (22:22) Mads Christiansen vann boltann í vörn Dana, brunaði fram og jafnaði metin. Það var ekki lengi gert.

53. (20:22) Rivera með sitt níunda mark og munurinn er tvö mörk, 22:20, þegar Guðmundur Guðmundsson tekur leikhlé, tæpum 8 mínútum fyrir leikslok. Staðan er strembin hjá honum og hans mönnum.

46. (18:20) Valero Rivera var að koma Spáni í 20:18 með fjórða marki þeirra í röð, rétt eftir að Hans Lindberg tók upp á því að klúðra víti fyrir Dani.

39. (17:15) Valero Rivera var að minnka muninn í eitt mark með sínu sjöunda marki í kvöld. Mikkel Hansen er hins vegar kominn í gang hjá Dönum og var að skora sitt fimmta mark.

36. (15:13) Danir komnir tveimur mörkum yfir. Joan Canellas fékk aðra brottvísun Spánverja í leiknum en Danir nýttu það svo sem ekkert sérstaklega vel.

31. (11:11) Seinni hálfleikur hafinn og Spánverjar byrja með boltann.

30. Hálfleikur. (11:11) Þessi leikur er hnífjafn. Mikkel Hansen jafnaði metin með sínu fyrsta marki í kvöld þegar 10 sekúndur voru eftir af fyrri hálfleiknum. Vinstri hornamaðurinn Anders Eggert er markahæstur Dana með sex mörk en kollegi hans hjá Spáni, Valero Rivera, hefur skorað fjögur.

25. (10:10) Allt í járnum í þessum leik. Guðmundur tók leikhlé eftir að Spánn komst í 10:8 og Danir hafa jafnað metin.

21. (8:9) Spánverjar komust yfir í fyrsta sinn í leiknum þegar Joan Canellas kom þeim í 9:8 á meðan að Mikkel Hansen sat af sér tveggja mínútna brottvísun.

14. (6:6) Gedeón Guardiola var að jafna metin fyrir Spán úr hraðaupphlaupi.

12. (6:4) Danir hafa náð tveggja marka forskoti og það var nóg til að Spánn tæki leikhlé. 

7. (3:3) Það er jafnræði með liðunum í upphafi leiks og þetta gæti orðið mikill spennuleikur. Valero Rivera var að jafna metin með marki eftir að Niklas Landin hafði varið vítakast frá honum.

1. Leikur hafinn. Danir byrja með boltann. Staðan verður uppfærð í fyrirsögn og hægt að sjá hana með því að endurhlaða síðuna (F5).

0. Þessi lið mættust í úrslitaleik síðasta heimsmeistaramóts, á Spáni, þar sem Spánverjar niðurlægðu hreinlega Dani.

0. Spánn sló Túnis út í 16-liða úrslitum með stórsigri en Danir unnu Íslendinga af miklu öryggi eins og flestum ætti að vera kunnugt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert