Vonsvikinn eftir fyrsta tapið

Dagur Sigurðsson var vonsvikinn yfir fyrsta tapleik liðsins.
Dagur Sigurðsson var vonsvikinn yfir fyrsta tapleik liðsins. AFP

„Ég er vonsvikinn yfir fyrsta tapleik okkar í keppninni," sagði Dagur Sigurðsson, þjálfari þýska landsliðsins, eftir að lið hans tapaði, 24:22, fyrir Katar í 8-liða úrslitum heimsmeistaramótsins í Luseil í Katar í dag.  „Við erum hinsvegar ekki af baki dottnir, berum höfuðið hátt og mætum ákveðnir í næsta leik," sagði Dagur ennfremur.

„Slakur leikur okkar í fyrri hálfleik gerði okkur erfitt fyrir. Það er erfitt að lenda fjórum til sex mörkum undir. En við gáfumst ekki upp heldur tókst með nokkrum breytingum að setja Katarliðið undir pressu þegar á leið síðari hálfleiks," sagði Dagur ennfremur og hrósaði markverði Katara, Danijel Saric. Hann hafi verið þröskuldurinn sem þýska liðið komst ekki yfir undir lokin þegar hann varði nokkrum sinnum úr opnum færum.

„Við fengum tækifæri að jafna metin," sagði Dagur og bætti við. „Eftir á að hyggja þá átti ég að skipta fyrr í 6/0 vörn. Eftir að við breyttum var vörnin þéttari. Eins var var sóknarleikurinn erfiður í fyrri hálfleik vegna þess að skytturnar náðu sér ekki á strik og miðjumaðurinn var ekki nógu sókndjarfur. Svo þurftum við að hreyfa við liðinu vegna meiðsla.

Dagur og félagar mæta Króatíu á föstudaginn sem tapaði fyrir Póllandi í dag. Sigurliðið leikur um 5. sætið en tapliðið um það sjöunda. Þótt þýska liðið hafi þegar náð lengra en margir töldu fyrirfram segir Dagur menn vera vonsvikna nú svo skömmu eftir tapið sem kom í veg fyrir að liðið kæmist í undanúrslit. „Heilt yfir getum við verið ánægðir með frammistöðu okkar í mótinu og hvernig við höfum spilað. Þetta var aðeins fyrsta tap okkar á heimsmeistaramótinu. Við eigum enn eftir tvo leiki í mótinu og þegar úrslit þeirra liggja fyrir sjáum við til í hvaða sæti við höfnum."

Spurður um dómgæsluna sagðist Dagur ekkert annað hana að segja en þetta hafi verið erfiður leikur að dæma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert