Mér leið illa eftir tapið

„Nóttin var erfið. Mér og leikmönnum mínum leið illa eftir að tapa í jöfnum leik," sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari Dana, í samtali við mbl.is í Doha í Katar í morgun. Danska landsliðið tapaði  í gær naumlega fyrir Spánverjum, 25:24, í leik um keppnisrétt í undanúrslitum heimsmeistaramótsins í handknattleik. Sigurmarkið var skorað tveimur sekúndum fyrir leikslok.

„Það er slæm tilfinnig að tapa með eins marks mun þar sem sigurmarkið er skorað á síðustu sekúndu," sagði Guðmundur sem m.a. notaði nóttina til þess að liggja yfir upptöku af leiknum. Hann segir að eftir á að hyggja sé ljóst að ýmislegt hefði betur mátt fara hjá danska liðinu. „Ég er einn óánægðastur með hversu langar sóknir Spánverjar fengu að leika. Þeir fengu að byrja sumar sóknir skipti eftir skipti eftir að hendur dómaranna voru komnar upp til marks um leiktöf."

Danskir fjölmiðlar segja sumir hverjir að HM sé lokið hjá danska liðinu. Guðmundur gefur ekki mikið fyrir slíkar vangaveltur þótt vissulega hafi það öllum verið mikil vonbrigði að komast ekki í undanúrslit. „Við eigum tvo leiki eftir sem við verðum að ljúka með sóma til þess að standa sem best að vígi þegar kemur að forkeppni Ólympíuleikanna."

Nánar er rætt við Guðmund Þórð á meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert