Tap rænir mig ekki svefni

„Maður verður að taka því með jafnaðargeði hvort sem maður vinnur eða tapa. Mér hefur gengið ágætlega með það og læt tap ekki ræna frá mér svefni," sagði Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Þýskalands í handknattleik þegar mbl.is hitti hann að máli í morgun á blaðamannafundi þýska landsliðsins á Hilton hótelinu í Doha.

„Vonbrigðin eru mikil hjá mér og strákunum að tapa leiknum," sagði Dagur en þýska liðið tapaði fyrir Katar í gær í leiknum um að komast í undanúrslit á heimsmeistaramótinu. Þýska liðið mætir Króatíu á morgun í leik um fimmta til áttunda sætið á mótinu.

„Við hefðum getað gert betur. Þetta var svipað og í leiknum við Rússa þar sem við lentum undir í fyrri hálfleik en tókst að jafna og komast yfir í síðari hálfleik. Nú vantaði okkur kraftinn í lokinn sem við höfðum gegn Rússum."

Dagur og lærisveinar mæta landsliði Króatíu á morgun. „Það verður mjög erfiður leikur þar sem Króatar hafa marga mjög reynda leikmenn. Eigum við ekki að segja að þeir hafi líkurnar með sér," segir Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Þýskalands.

Nánar er rætt við Dag á meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert