Þarf ekki að treysta á „wildcard“ sæti

Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Þýskalands, var glaður í bragði eftir sigur …
Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Þýskalands, var glaður í bragði eftir sigur á Slóvenum í síðasta leiknum á HM í Katar. EPA

„Ég er mjög ánægður með úrslitin. Það var vitað fyrirfram að leikurinn yrði ekki sá besti sem liðin léku í keppninni heldur myndi hann snúast um hvort liðið hefur meiri löngum og vilja til þess að vinna,“ sagði Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Þýskalands í handknattleik, eftir að lið hans lagði Slóveníu, 30:27, í leiknum um 7. sætið á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Doha í Katar í dag.

Sigurinn tryggir þýska landsliðinu öruggt sæti í forkeppni Ólympíuleikanna á næsta ári. „Það er góður áfangi og léttir að þurfa ekki að treysta á „wildcard“ sæti aftur,“ sagði Dagur léttur í bragði eftir leikinn en hann gaf sér góðan tíma til að tala við fjölmarga fjölmiða á ýmsum tungumálum.

„Það er alltaf jákvætt að enda stórmót á sigri. Þá fer maður með betri minningar heim,“ segir Dagur sem er ánægður með árangur þýska landsliðsins á mótinu. „Við unnum sex leiki, gerðum eitt jafntefli og töpuðum tveimur leikjum. Þegar litið er til þess hvaða lið eru á eftir okkur getum við verið ánægður.

„Við lékum afar vel fyrstu fjóra leikina í mótinu en síðan dró aðeins úr kraftinum enda um langt og strangt mót að ræða,“ sagði Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Þýskalands í handknattleik karla í samtali við mbl.is í Doha í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert