Frakkar heimsmeistarar í fimmta skipti

Frakkar voru að tryggja sér heimsmeistaratitilinn í handknattleik karla í fimmta sinn eftir sigur á Köturum, 25:22, í Doha í Katar.

Eftir að Katarar skoruðu fyrsta mark leiksins tóku Frakkar völdin. Þeir náðu frumkvæðinu eftir nokkurra mínútna leik og létu það ekki af hendi. Frakkar náðu mest sex marka forskoti í fyrri hálfleik, 13:7, en staðan í hálfleik var 14:11.

Katarar gáfu allt í leikinn í seinni hálfleik. Þeir náðu nokkrum sinnum að minnka muninn niður í eitt stig en Frakkar héldu haus og innbyrtu sanngjarnan sigur. Nikola Karabatic skoraði 5 mörk fyrir Frakka og þeir Daniel Narcisse og Valentin Porte skoruðu 4 mörk hvor. Zarko Markovic skoraði 7 mörk fyrir Katar og Rafael Capote var með 6.

Í aðdraganda leiksins höfðu margir áhyggjur af dómgæslunni í leiknum en tékknesku dómararnir Vaclav Horacek og Jiro Novotny dæmdu leikinn virkilega vel.

Þetta er tíundi stóri titill Frakka en sigurganga þeirra hófst í Laugardalshöllinni árið 1995 þegar þeir hömpuðu heimsmeistaratitilinum í fyrsta sinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert