Pólland tók bronsið í framlengingu

Pólverjar voru að tryggja sér bronsverðlaunin á heimsmeistaramótinu í handknattleik eftir sigur á fráfarandi heimsmeisturum Spánverja. Pólverjar höfðu betur í framlengdum leik, 29:28.

Pólverjar hófu leikinn með látum og komust í 3:0 og 5:1, en Spánverjarnir náðu smátt og smátt að komast inn í leikinn og staðan var jöfn í hálfleik, 13:13. Í síðari hálfleik náðu Spánverjar mest fjögurra marka forskoti og virtust ætla að vinna leikinn en Pólverjarnir neituðu að gefast upp og tókst að knýja fram framlenginu. Úrslitin eftir venjulegan leiktíma voru jöfn, 24:24. Staðan var enn jöfn, 26:26, eftir fyrri hálfleikinn í framlengingunni en Pólverjar reyndust sterkari á lokasprettinum.

Michal Szyba skoraði 8 mörk fyrir Pólverja og Kamil Syprzak 6 en hjá Spánverjum var Víctor Tomás markahæstur með 7 mörk og Antonio García skoraði 5.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert