„Ágætisferðalag á liðinu“

Leikmenn íslenska landsliðsins þakka fyrir stuðninginn eftir leikinn við Túnis.
Leikmenn íslenska landsliðsins þakka fyrir stuðninginn eftir leikinn við Túnis. AFP

„Það var ánægjulegt að fá að taka þátt í HM en það var fúlt að við skyldum ekki taka bæði stigin,“ sagði varnarjálkurinn Bjarki Már Gunnarsson við mbl.is eftir jafntefli Íslendinga og Túnisa á HM í handknattleik í dag.

Bjarki, sem var utan hóps í fyrsta leiknum gegn Spánverjum og sat svo allan tímann á bekknum í leiknum við Slóvena, kom sterkur inn í vörnina þegar Íslendingar voru 6:3 undir eftir 11 mínútna leik og innkoma hans bætti vörnina til muna.

„Við áttum góða möguleika á að vinna þennan leik. Ég hélt að við værum að brjóta þá niður þegar við náðum þriggja marka forskoti um miðjan seinni hálfleik en því miður komu Túnisar til baka.

Mér fannst varnarleikurinn lagast þegar á leikinn leið. Þetta voru mikil slagsmál og mér leiðist það ekki. Við tökum þessu stigi fagnandi þótt við höfum viljað fá bæði en nú þurfum við bara að vinna síðustu tvo leikina. Við getum tekið ýmislegt út úr þessum leik. Það er búið að vera ágætisferðalag á liðinu og við verðum vonandi enn betri í næsta leik,“ sagði Bjarki Már Gunnarsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert