Þægilegt hjá Degi og Kristjáni

Mattias Zachrisson átti virkilega góðan leik fyrir Svía.
Mattias Zachrisson átti virkilega góðan leik fyrir Svía. AFP

Kristján Andrésson og Dagur Sigurðsson áttu þægilegan dag á HM í handbolta í dag. Kristján stýrði sænskum lærisveinum sínum til öruggs 35:17 sigurs á Argentínu á meðan þýskir lærisveinar Dags unnu Síle 35:14.

Þjóðverjar voru með 18:8 forystu í hálfleik og var eftirleikurinn auðveldur fyrir Evrópumeistarana. Jannik Kohlbacher var markahæstur með átta mörk og Rune Dahmke skoraði sjö fyrir Þýskaland á meðan enginn skoraði meira en tvö mörk fyrir Síle. 

Dagur og félagar hafa því unnið tvo fyrstu leiki sína og eru á toppi C-riðils ásamt Króatíu. 

Sigur Svía á Argentínu var ansi svipaður. Forskotið var orðið ágætt í hálfleik og var eftirleikurinn þægilegur í seinni hálfleik. 

Mattias Zachrisson skoraði átta mörk fyrir Svía og Jerry Tollbring og Jim Gottfridsson skoruðu fimm mörk hvor. Sebastian Simonet var markahæstur hjá Argentínu með fimm mörk. 

Svíar og Danir eru hvorir tveggja með fjögur stig á toppnum en þeir mætast á morgun í algjörum stórleik. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert