Þetta var skrítinn andstæðingur

Rúnar Kárason í leiknum í dag.
Rúnar Kárason í leiknum í dag. AFP

„Þetta var skrítinn andstæðingur. Þetta var erfitt í fyrri hálfleik en við náðum að rétta úr kútnum í seinni hálfleik og það var svekkjandi, við fórum illa að ráði okkar eftir að við komumst yfir. Við gerðum okkur seka um rosalega ódýr mistök,“ sagði Rúnar Kárason, landsliðsmaður í handbolta, eftir 22:22 jafntefli við Túnis á HM í Frakklandi í dag. 

Svo virtist sem það væru blendnar tilfinningar hjá Rúnari eftir leik. Að fá stig var ekki neitt til að skammast sín fyrir en hann vildi að sjálfsögðu fá tvö.

„Þeir voru yfir í fyrri hálfleik en svo komumst við tveimur yfir en eftir það förum við illa að ráði okkar. Þetta eru hlutir sem við þurfum að læra af. 

Þetta var annar leikur Íslands á tveimur dögum og viðurkennir Rúnar að hann hafi verið stirður fyrir leik. 

„Ég var stirður fyrir leik en mér líður vel núna. Við látum sjúkraþjálfarana taka vel á okkur. Það er kærkomið að fá dag í pásu fyrir leik gegn Úganda sem við verðum að vinna. Við munum gefa allt í þann leik,“ sagði Rúnar í samtali við Rúv. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert