„Við erum á lífi“

Guðjón Valur fagnar einu af fimm mörkum sínum í dag.
Guðjón Valur fagnar einu af fimm mörkum sínum í dag. AFP

„Við vorum komnir í góða stöðu en úr því sem komið var þar sem Túnisar áttu lokasóknina þá virðum við þetta stig og við erum enn á lífi. Við erum komnir á blað og ætlum að bæta í sarpinn,“ sagði Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, við mbl.is eftir jafntefli Íslands og Túnis á HM í handknattleik í Metz í dag.

Guðjón Valur var markahæstur í íslenska liðinu með fimm mörk en hann jafnaði í dag leikjamet Ólafs Stefánssonar. Báðir hafa spilað 54 leiki á heimsmeistaramóti.

„Við gerum þetta okkur að góðu en auðvitað vildum við meira. Það voru þvílík læti í þessum leik allan tímann og mikill barningur út í gegn. Þetta var leikur alveg eins og ég vissi að myndi spilast og við vorum búnir að búa okkur undir það. Túnisarnir eru villtir en eru gríðarlega sterkir maður á mann. Við lendum í miklum vandræðum með örvhentu skyttuna þeirra í fyrri hálfleik en að öðru leyti fannst mér við hafa stjórn á þeim,“ sagði Guðjón Valur.

„Ég hélt að við værum að sigla fram úr þeim og brjóta þá niður en fengum þá tvisvar sinnum tveggja mínútna brottvísun sem mig langar að sjá aftur. Mér fannst þetta ekki réttur dómur en ég viðurkenni að ég er ekki alveg hlutlaus. Og þá fannst mér ruðningsdómurinn undir lokin vafasamur. Mér fannst Túnisinn detta helst til of auðveldlega í gólfið,“ sagði Guðjón Valur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert