Lít björtum augum á framtíð landsliðsins

Ásgeir Örn Hallgrímsson.
Ásgeir Örn Hallgrímsson. mbl.is/Golli

Ásgeir Örn Hallgrímsson segir að hann og félagar hans í íslenska landsliðinu hafi lagst á koddann í gærkvöld frekar súrir í bragði eftir jafnteflið gegn Túnisum á þriðja leik liðsins á HM í handknattleik í Metz.

,,Okkur langaði virkilega í stigin tvö sem voru í boði í og við höfðum öll tök á að gera það. En við tökum hverju stigi fagnandi og nú erum framundan tveir úrslitaleikir sem verða að vinnast. Takist það þá ættum við að komast í 16-liða úrslitin. Möguleikinn er enn fyrir hendi að ná þriðja sætinu en það er samt ekki í okkar höndum. Nú erum við bara staðráðnir í að vinna þessa tvo síðustu leiki og sjáum hverju það skilar,“ sagði Ásgeir Örn við mbl.is í dag.

Vörn og markvarsla hefur verið í góð lagi í fyrstu þremur leikjum íslenska liðsins en leikmenn liðsins hafa verið mistækir í sóknarleiknum.

,,Tæknifeilarnir hafa verið allt of margir hjá okkur í sókninni. Við höfum hent boltanum allt of auðveldlega frá okkur í sókninni og gert klaufaleg mistök sem hafa komið í bakið á okkur. Þessa hluti verðum við að laga,“ sagði Ásgeir.

Lítum ekki á HM sem eitthvað æfingamót

Ásgeir segist ánægður með framlag ungu leikmannanna í liðinu en ákveðið uppbyggingarferli er hafið undir stjórn Geirs Sveinssonar.

,,Ég lít björtum augum á framtíð landsliðsins. Þessir strákar sem hafa verið að koma inn eru bara rosalega flottir. Þeir eru góðir í handbolta og mjög viljugir. Þetta mót er flott eldskírn fyrir þá. En þó svo að breytingar séu í gangi þá viljum við sjá árangur.

Við lítum ekki á HM sem eitthvað æfingamót. Við erum hér til þess að vinna leiki og komast eins langt í mótinu og mögulegt er. Ef okkur tekst að vinna þessa tvo síðustu leiki í riðlinum erum við komnir í bikarleik þar sem allt getur gerst. Ef við hittum á toppleik þar þá eru okkur allir vegir færir,“ sagði Ásgeir Örn

Ásgeir Örn leikur með Nimes í Frakklandi og er mjög ánægður þar.

,,Ég framlengdi samning minn við liðið síðasta sumar og á tvö og hálft ár eftir af samningi mínum. Ég er því sallarólegur. Ég er mjög ánægður í Nimes og við fjölskyldan höfum það rosalega gott. Þetta er í fyrsta skipti sem ég fór út í atvinnumennskuna þar sem ég er svona lengi á sama staðnum og það er bara virkilega gott,“ sagði Ásgeir Örn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert