Slóvenar fyrstir áfram úr okkar riðli

Matej Gaber í baráttunni gegn Makedóníu í dag.
Matej Gaber í baráttunni gegn Makedóníu í dag. AFP

Slóvenar tryggðu sér sæti í 16-liða úrslitum heimsmeistaramótsins í handknattleik eftir öruggan sigur á Makedóníu, 29:22, í B-riðli, riðli Íslands, í dag. Íslendingar eiga þar af leiðandi enn möguleika á að ná þriðja sæti riðilsins.

Slóvenar voru með frumkvæðið allan tímann, voru sex mörkum yfir í hálfleik 16:10 og létu kné fylgja kviði í seinni hálfleik. Niðurstaðan sjö marka sigur þeirra, 29:22.

Markaskorunin dreifðist vel um liðið og alls komust tólf leikmenn á blað. Þeir markahæstu skoruðu fjögur mörk, en það voru þeir Gasper Margug og Marko Bezjak. Hjá Makedóníu var Kiril Lazarov atkvæðamikill sem fyrr og skoraði níu mörk.

Slóvenar eru með fullt hús stiga eftir þrjá leiki og eru öruggir með að enda í efstu fjórum sætum riðilsins. Liðið mætir Túnis á morgun og síðasti leikurinn er svo gegn Spánverjum, en líklegt má telja að bæði lið verði þá búin að tryggja sig áfram.

Níu mörk Kiril Lazarov fyrir Makedóníu dugðu ekki til.
Níu mörk Kiril Lazarov fyrir Makedóníu dugðu ekki til. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert