Verðum að fækka mistökunum

Ólafur Andrés Guðmundsson tekur skot í leiknum gegn Spánverjum.
Ólafur Andrés Guðmundsson tekur skot í leiknum gegn Spánverjum. AFP

„Við þurfum á fjórum stigum að halda og vonandi dugar það fyrir okkur til að komast áfram,“ sagði Ólafur Andrés Guðmundsson, landsliðsmaður í handknattleik, í samtali við mbl.is.

Íslendingar kræktu í sitt fyrsta stig á heimsmeistaramótinu í Metz í gær þegar þeir gerðu jafntefli við Túnisa. Annað kvöld mætir íslenska liðið Angóla og á fimmtudaginn verða andstæðingarnir Makedónía.

„Nú erum við bara með hugann við leikinn á móti Angóla. Við förum í alla leiki til að vinna og ég hef fulla trú á að fyrsti sigurinn detti í hús á morgun,“ sagði Ólafur, sem hefur skorað 8 mörk á mótinu.

Ólafur hefur spilað stóra rullu í nokkuð góðum varnarleik liðsins á HM en sóknarleikurinn hefur ekki gengið alveg sem skyldi þar sem leikmenn hafa gert sig seka um of mörg mistök.

„Við höfum of mikið af „teknískum“ feilum í sókninni og þeim verður að fækka hjá okkur. Við höfum verið að kasta boltanum barnalega frá okkur og flýtt okkur allt of mikið á köflum. Þegar við töpum boltanum á þennan hátt er okkur refsað.  Mér finnst hins vegar vörnin búin að vera frábær og við höfum fengið góða markvörslu,“ sagði Ólafur.

Ólafur á eitt og hálft ár eftir af samningi sínum við Kristianstad. „Eins og staðan er núna þá verð ég bara áfram í Kristianstad. Mér líður mjög vel hjá liðinu. Ég er í toppliði í sænsku deildinni og spila í Meistaradeildinni þar sem við erum með möguleika á að komast áfram,“ sagði Ólafur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert