Fjórtán marka sigur á Angóla

Íslenska landsliðið í handknattleik komst inn á sigurbraut á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla í kvöld þegar liðið vann landsliðs Angóla, 33:19, í kaflaskiptum leik í 4. umferð B-riðils. Ísland var átta mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 16:8. 

Þetta var fyrsti sigur íslenska landsliðsins á heimsmeistaramótinu að þessu sinni. Liðið hefur nú þrjú stig í fjórða sæti. Íslenska liðið mætir landsliðið Makedóníu á fimmtudaginn. Að þeim leik loknum ræðst hvort íslenska landsliðið kemst í 16-liða úrslit eða ekki. 

Íslenska landsliðið þreifst á hraðaupphlaupum, góðri vörn og markvörslu í fyrri hálfleik. Uppstilltur sóknarleikur var slakur. Um miðjan hálfleikinn var íslenska liðið með þriggja marka forskot, 6:3, en þá kom góður kafli og munurinn jókst smátt og smátt fram að hálfleik. 

Fyrstu 20 mínútur síðari hálfleiks máttu vart á milli sjá hvort liðið var sterkara á leikvellinum. Angólamenn virtust að minnsta kosti hafa í fullu tré við leikmenn Íslands. Varnarleikurinn var slakur og m.a. skoruðu Angólamenn tvö mörk á kafla þar sem þeir voru tveimur mönnum færri á leikvellinum en þeir íslensku. 

Geir Sveinsson, landsliðsþjálfari, skerpti á leik sínum síðustu 10-12 mínúturnar. Það skilað sér í betri leik auk þess sem Björgvin Páll Gústavsson kom í markið á ný og varði vel. Aron Rafn Eðvarðsson nýtti ekki sitt tækifæri að þessu sinni.  Eins og í fyrri hálfleik þá voru það hröð upphlaup sem fyrst og fremst skildu liðin að auk markvörslunnar meðan Björgvin Páll stóð í marki Íslands. 

Í heildina var leikur íslenska liðsins kaflaskiptur og langt í frá viðunandi. Á fimmtudaginn verður andstæðingurinn sterkari og þá verður íslenska landsliðið svo sannarlega að eiga heilsteyptari leik til þess að vinna Makedóníumenn. 

Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur með átta mörk, Arnór Þór Gunnarsson sjö og Bjarki Már Elísson sex, Ómar Ingi Magnússon fjögur, öll úr vítaköstum, Kári Kristján Kristjánsson tvö, Rúnar Kárason tvö, Gunnar Steinn Jónsson tvö, Arnór Atlason eitt og Ásgeir Örn Hallgrímsson eitt. 

Björgvin Páll varði 18 skot, Aron Rafn eitt vítakast. 

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is. 

Ísland 33:19 Angóla opna loka
60. mín. Jaroslav Aguiar (Angóla) á skot í slá - fær vítakast.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert