Slóvenía bjargaði málunum fyrir horn

Hafedh Zouabi, þjálfari Túnis, sposkur á svip á hliðarlínunni í …
Hafedh Zouabi, þjálfari Túnis, sposkur á svip á hliðarlínunni í dag. AFP

Staða Íslands á heimsmeistaramótinu í handknattleik var hársbreidd frá því að verða svartari, en jöfnunarmark Slóveníu gegn Túnis, 28:28, bjargaði málunum fyrir horn. Íslandi dugar ekkert minna en sigrar í báðum leikjum sínum sem eftir eru.

Slóvenar voru yfir í hálfleik, 15:13, en Slóvenar náðu góðum kafla í upphafi síðari hálfleiks og skoruðu meðal annars sex mörk gegn einu. Þegar síðari hálfleikur var hálfnaður var Túnis með þriggja marka forskot, 24:21.

Þar með voru Túnisbúar komnir með blóð á tennurnar, en lokakaflinn var þeim erfiður. Slóvenar bitu frá sér undir lokin og minnkuðu forskotið niður í eitt mark þegar rúm mínúta var eftir. Fimm sekúndum fyrir leikslok náðu þeir svo að jafna, lokatölur 28:28. 

Alls skoruðu Slóvenar fimm síðustu mörkin, á meðan Túnis skoraði ekki síðustu sex mínúturnar. Mosbah Sanai fór sem fyrr fyrir liði Túnis, en hann skoraði átta mörk. Hjá Slóvenum var Vid Kavticnik atkvæðamestur með sjö mörk.

Ísland verður að vinna báða leiki sína, gegn Angóla og Makedóníu, til þess að komast örugglega áfram. Þar sem leik­ur Íslands og Tún­is á sunnu­dag­inn endaði með jafn­tefli get­ur sú staða hæg­lega komið upp að liðin verði jöfn að stig­um þegar upp verður staðið í riðlin­um. Bæði með þrjú, fjög­ur eða fimm stig.

Í því til­felli myndi marka­tala liðanna ráða hvort þeirra yrði ofar og það gæti um leið ráðið úr­slit­um um hvort þeirra kemst í 16 liða úr­slit, eða hvort þeirra myndi ná þriðja sæti riðils­ins.

Makedónía er hins vegar öruggt með sæti í 16-liða úrslitum, þar sem Túnis getur mest náð í 4 stig og jafnað Makedóníu, sem hafði þó betur í innbyrðis viðureignum. Baráttan er því á milli Íslands og Túnis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert