Guðmundi hrósað af dönskum sérfræðingi

Guðmundur Guðmundsson fer yfir málin með sínum mönnum.
Guðmundur Guðmundsson fer yfir málin með sínum mönnum. AFP

Guðmundur Guðmundsson virðist vera að vinna á sitt band einn sinn helsta gagnrýnanda síðustu árin, Bent Nyegaard sérfræðing hjá TV2, í starfi sínu sem landsliðsþjálfari Dana. 

Nyegaard lýsir ánægju sinni með hvernig tímanum er varið þegar danska landsliðið tekur leikhlé á HM í handbolta. Í umfjölluninni segir að leikurinn á móti Svíum beri þess glöggt vitni að vinnubrögð Guðmundar og landsliðsmannanna hafi breyst hvað leikhléin varðar. Fleiri komi nú að ákvarðanatökunni og umræðum í leikhléum en áður. 

„Hér hefur orðið umtalsvert breyting. Auðvelt er að átta sig á því að Guðmundur hefur sínar skoðanir en hann leyfir einnig leikmönnum að komast að. Og leikmennirnir eru tilbúnir til þess. Mikkel Hansen er til dæmis mjög virkur og hefur skoðanir á því hvernig hann vill spila,“ sagði Nyegaard varðandi þetta atriði. Hann segir einnig jákvætt að Morten Olsen sé virkur í leikhléum því hann sé leikstjórnandi og þurfi að framkvæma inni á vellinum það sem lagt er til. Bent Nyegaard segir þetta vera vitnisburð um að Guðmundur sé að nýta styrkleika danska hópsins til hins ýtrasta. 

Í umfjölluninni er tekið fram að ekki geti hver sem er verið að „blaðra“ meðan á leikhléi stendur. Í raun sé ákveðin tröppugangur innan liðsins þegar kemur að þessum málum. Eins fari eftir því hvort verið sé að ræða sókn eða vörn. Ekki séu endilega sömu leikmennirnir sem taki þátt í umræðunum eftir því hvort á við. 

Til fróðleiks má geta þess að Bent Nyegaard þjálfaði Fram og ÍR hérlendis fyrir nokkrum áratugum síðan. Frá því Guðmundur tók við danska landsliðinu árið 2014 hefur Nyegaard oftar en einu sinni verið gagnrýninn á Guðmund og danska landsliðið. 

Mikkel Hansen
Mikkel Hansen AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert