Ísland spilar úrslitaleik um þriðja sætið

Valero Rivera fór á kostum og skoraði ellefu mörk fyrir …
Valero Rivera fór á kostum og skoraði ellefu mörk fyrir Spánverja í kvöld. AFP

Spánverjar uppfylltu óskir Íslendinga og unnu Makedóníu, 29:25, þegar þjóðirnar mættust í B-riðli heimsmeistaramótsins í handknattleik í kvöld. Úrslitin þýða það að Ísland og Makedónía mætast í úrslitaleik um þriðja sæti riðilsins á morgun.

Makedónía byrjaði leikinn vel og hafði yfirhöndina í fyrri hálfleik. Spánn skoraði síðustu þrjú mörk hans og náðu að jafna, staðan 14:14 í leikhléi. Spánverjar náðu svo undirtökunum þegar leið á síðari hálfleikinn.

Forysta þeirra var þrjú mörk lengi vel, en undir lokin fór bilið að breikka. Mest var það sex mörk, en þegar yfir lauk munaði svo fjórum mörkum, lokatölur 29:25.

Valero Rivera fór á kostum fyrir Spánverja, en hann skoraði ellefu mörk. Kiril Lazarov, markahæsti maður mótsins, skoraði sex fyrir Makedóníu.

Fyrir lokaumferðina í riðlinum er Spánn með fullt hús, átta stig, og Slóvenía hefur sjö. Þau lið mætast í úrslitaleik um efsta sætið.

Makedónía er í þriðja sæti með fjögur stig og Ísland er í því fjórða með þrjú stig. Þar verður úrslitaleikur um þriðja sætið á morgun, en ljóst er að liðið sem það hreppir mætir Noregi í 16-liða úrslitum. Það lið sem hafnar í fjórða sæti riðilsins mætir heimsmeisturum og gestgjöfum Frakka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert