Munum finna fyrir þreytu gegn Íslendingum

Kiril Lazarov.
Kiril Lazarov. AFP

Kiril Lazarov stórskytta Makedóníumanna býst við hörkuleik gegn Íslendingum þegar þjóðirnar eigast við í lokaumferð B-riðilsins á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Metz annað kvöld.

Makedóníumenn töpuðu fyrir Spánverjum í kvöld. Þeir voru hins vegar öruggir áfram í 16-liða úrslitin fyrir leikinn. Úrslitin gerðu það hins vegar að verkum að nái Íslendingar að fara með sigur af hólmi í leiknum enda þeir í þriðja sæti riðilsins en Makedóníumenn í fjórða sætinu.

„Ég var ánægður með leik okkar lengi framan af á móti góðu spænsku liði sem er eitt af þeim liðum sem getur orðið heimsmeistari. Við höfum lítinn tíma til undirbúnings fyrir leikinn gegn Íslendingum og líklega munum við finna fyrir þreytu í leiknum. En þetta verður örugglega hörkuleikur,“ sagði Lazarov við mbl.is en hann var ekkert sérlega ræðinn við íslensku pressuna eftir leikinn í kvöld.

Lazarov er markahæsti leikmaðurinn á HM með 37 mörk og hann er sá leikmaður sem Íslendingar verða að hafa góðar gætur á í leiknum annað kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert