Íslandi nægir jafntefli - Túnis náði ekki markamuninum

Hornamaðurinn Oussama Hosni reynir skot að marki Angóla í leiknum …
Hornamaðurinn Oussama Hosni reynir skot að marki Angóla í leiknum í Metz í dag. AFP

Íslandi nægir jafntefli gegn Makedóníu í Metz í dag til að komast í 16 liða úrslit heimsmeistaramótsins í handbolta. Það varð ljóst rétt í þessu þegar Túnis sigraði Angóla, 43:34, í fyrsta leik lokaumferðarinnar í B-riðlinum.

Túnis er þá með 4 stig og hefur lokið sínum leikjum en Ísland er með 3 stig fyrir leikinn gegn Makedóníu, sem er þegar komin áfram með 4 stig. Angóla lauk keppni án stiga og fer í Forsetabikarinn ásamt Íslandi eða Túnis.

Túnis hefði þurft að vinna leikinn með sextán marka mun til að vera með betri markatölu en Ísland, en hún mun ráða úrslitum ef Ísland gerir jafntefli við Makedóníu á eftir vegna þess að Ísland og Túnis gerðu jafntefli í sínum innbyrðis leik. 

Leikur Túnis og Angóla var jafn framan af og eftir 17 mínútur var staðan 11:9 fyrir Túnisbúa, sem þá voru óraveg frá því að vinna upp markatölu Íslands. Þeir gáfu hinsvegar í, náðu átta marka forskoti um tíma en staðan var 23:16 í hálfleik. 

Munurinn á liðunum sveiflast síðan frá fimm og upp í níu mörk í seinni hálfleiknum en sextán marka sigur var aldrei inni í myndinni hjá Túnisbúum.

Amine Bannour skoraði 10 mörk fyrir Túnisbúa og Mosbah Sanai 7 en Gabriel Teca skoraði 10 mörk fyrir Angóla og Sergio Lopez 7.

Þar með er sviðsmyndin fyrir leik Íslands og Makedóníu klukkan 16.45 endanlega á hreinu:

Ef Ísland sigrar, verður liðið í 3. sæti og mætir Noregi í Albertville á laugardag.

Ef leikurinn endar með jafntefli verður Ísland í 4. sæti og mætir Frakklandi í Lille á laugardag.

Ef Ísland tapar verður liðið í 5. sæti og mætir Póllandi í Brest á laugardaginn í keppninni um 17. til 20. sætið á mótinu, eða keppninni um Forsetabikarinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert