Spánn burstaði Slóveníu í lokaleiknum

Spánverjinn Julen Aguinagalde kemst framhjá Matej Gaber í leiknum í …
Spánverjinn Julen Aguinagalde kemst framhjá Matej Gaber í leiknum í kvöld. AFP

Spánn endaði B-riðil heimsmeistaramótsins í handknattleik með stæl og burstaði Slóveníu, 36:26, í lokaleik riðilsins í kvöld. Um var að ræða úrslitaleik um efsta sæti riðilsins.

Spánverjar skoruðu ekki mark fyrr en eftir rúmlega sex mínútur en við það brutu þeir svo sannarlega ísinn. Þeir náðu frumkvæðinu og sigu fram úr jafnt og þétt. Spánverjar skoruðu sex af síðustu sjö mörkum fyrri hálfleiks og forysta þeirra var átta mörk að honum loknum, 18:10.

Spánverjar skoruðu fyrstu þrjú mörk seinni hálfleiksins og voru þar með komnir með 11 stiga forystu. Slóvenar náðu aldrei að bíta frá sér eftir þetta og gríðarlega öruggur tíu marka sigur Spánverja var staðreynd, 36:26.

David Balaguer skoraði sjö mörk fyrir Spán og Valero Rivera sex. Hjá Slóvenum skoraði Gasper Marguc sex mörk úr jafn mörgum skotum.

Spánverjar klára því riðilinn með fullt hús stiga eftir fimm leiki en Slóvenía tekur annað sætið með sjö stig. Spánn mætir Brasilíu í 16 liða úrslitunum og Slóvenía mætir Rússlandi.

Makedónía hafnaði í þriðja sæti og Ísland í því fjórða. Túnis og Angóla komu þar á eftir og komust ekki í 16 liða úrslitin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert