Guðjón markahæstur en Björgvin neðstur

Björgvin Páll Gústavsson hefur skorað tvö mörk á HM en …
Björgvin Páll Gústavsson hefur skorað tvö mörk á HM en varið 41 af 129 skoti sem hann hefur fengið á sig, samkvæmt vef IHF. AFP

Guðjón Valur Sigurðsson hefur skorað flest mörk fyrir Ísland á HM í handbolta í Frakklandi. Björgvin Páll Gústavsson og Arnór Atlason hafa hins vegar nýtt skotin sín best.

Ísland lék fimm leiki í riðlakeppninni og vann einn þeirra, gerði tvö jafntefli og tapaði tveimur. Liðið mætir Frakklandi í 16 liða úrslitum á morgun kl. 17.

Í riðlakeppninni skoraði Guðjón 24 mörk og var markahæstur Íslendinga þrátt fyrir að spila talsvert minna en jafnan áður, í þrjá klukkutíma af fimm mögulegum. Hann var með 63% skotnýtingu, samkvæmt yfirliti á vef alþjóða handboltasambandsins. Rúnar Kárason var næstmarkahæstur með 22 mörk og 56% nýtingu og Bjarki Már Elísson þriðji markahæstur með 19 mörk og 79% nýtingu, á þeim tæpu tveimur tímum sem hann spilaði.

Arnór Atlason var með besta skotnýtingu útileikmanna, en hann skoraði úr 10 af 12 skotum sínum, úr 83% tilrauna. Nafni hans, Arnór Þór Gunnarsson, var með 81% nýtingu.

Ásgeir Örn Hallgrímsson er aðeins með 29% nýtingu, hefur skorað 2 úr 7 tilraunum, og Janus Daði Smárason er með 30% nýtingu, eða 3 mörk úr 10 tilraunum.

Björgvin Páll Gústavsson markvörður skoraði úr báðum skotum sínum í riðlakeppninni, yfir allan völlinn í autt mark andstæðinganna, og var því með 100% nýtingu.

Björgvin er hins vegar neðstur á lista markvarða yfir hlutfall varinna skota, ásamt Adam Malcher hjá Póllandi, þegar horft er til markvarða sem hafa fengið á sig að minnsta kosti 20% skota andstæðinganna. Þeir hafa varið 32% skota sem þeir hafa fengið á sig, samkvæmt vef IHF.

Efstur er Espen Christensen, markvörður Noregs, með 43% markvörslu. Vincent Gerard og Thierry Omeyer, markverðir Frakklands og því næstu andstæðingar Íslands, eru ofarlega á lista, í 5. og 6. sæti, með 41 og 39% markvörslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert