Verst að mæta Íslandi

Didier Dinart hefur oft mætt Íslandi sem leikmaður og stýrir …
Didier Dinart hefur oft mætt Íslandi sem leikmaður og stýrir nú franska landsliðinu gegn því íslenska. AFP

Didier Dinart, þjálfari heimsmeistara Frakklands, viðurkennir að úr því sem komið var hafi það verið sísti kosturinn að fá Ísland sem mótherja í 16 liða úrslitunum á HM karla í handbolta í Frakklandi.

Ísland og Frakkland mætast á morgun kl. 17, en þetta varð ljóst eftir jafntefli Íslands og Makedóníu í B-riðlinum í gær. Þar með hafnaði Ísland í 4. sæti riðilsins en Frakkar höfðu tryggt sér efsta sæti A-riðils. Frakkar hefðu einnig getað mætt Makedóníu eða Túnis. Dinart var spurður að því hvort Ísland væri ekki erfiðasti andstæðingurinn af þessum þremur þjóðum:

„Jú. Af Makedóníu, Túnis og Íslandi er verst að mæta Íslandi. Liðið er þétt fyrir og spilar fjölbreyttan leik. En við verðum að hugsa um okkur sjálfa, eins og við gerðum í dag [í gær]. Við förum ekkert á taugum, undirbúum okkur vel og leggjum okkur 200% fram. Ef franska liðið spilar eins og við höfum gert hingað til á mótinu ætti allt að fara vel,“ sagði Dinart eftir sigur Frakka á Pólverjum í lokaleik sínum í riðlakeppninni í gær. Það var fimmti sigur Frakka í fimm leikjum.

„Þessi úrslit voru góð. Við gátum leyft mönnum sem höfðu ekkert spilað að spila nánast allan leikinn. Við gátum hvílt Nikola Karabatic og Valentin Porte. Við sáum líka frábæra frammistöðu hjá Olivier Nyokas. Við fengum virkilega góðan stuðning og þetta hjálpar okkur að fara á næsta stig keppninnar, í 16 liða úrslitin gegn Íslandi, í okkar besta ástandi. Ísland er lið sem þekkir okkur vel, með mikinn líkamlegan styrk. Við megum ekki gera nein mistök,“ sagði Dinart.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert