Ísland úr leik

Ísland er úr leik á heimsmeistaramótinu í handbolta eftir tap fyrir Frakklandi 31:25 í 16-liða úrslitum á Stade Pierre-Mauroy í Lille í dag. Frakkar eru komnir í 8-liða úrslit en Íslendingar halda heim á leið. 

Frakkland var með nauma forystu að loknum fyrri hálfleik 14:13. Þá lék íslenska liðið virkilega vel bæði í vörn og sókn. Vörnin var raunar mjög sterk og átti í fullu tré við Frakka þar sem Bjarki Már Gunnarsson og Ólafur Guðmundsson léku vel í miðri vörninni. Ólafur og Rúnar Kárason fundu sig einnig mjög vel í skyttustöðunum í sókninni og fyrir vikið gekk uppstilltur stóknarleikur betur í fyrri hálfleik í dag heldur en oft áður í mótinu. 

Í upphafi síðari hálfleik náði hins vegar sterkt lið Frakka tökum á leiknum. Frakkar náðu 6:1 kafla í upphafi síðari hálfleiks og eftir það var ljóst að erfitt yrði fyrir Íslendinga að vinna muninn upp. Í síðari hálfleik gerðu Íslendingar allt of mörg mistök í sókninni þar sem sóknirnar runnu út í sandinn án þess að ná skoti á markið. Gegn andstæðingi eins og Frakklandi geta menn ekki leyft sér slíkt. 

Íslensku landsliðsmennirnir brotnuðu hins vegar aldrei þrátt fyrir að staðan væri orðin erfið í síðari hálfleik. Eftir að Frakkar náðu sjö marka forskoti þá minnkaði Ísland muninn niður í fjögur mörk og fékk tækifæri til að minnka muninn niður í þrjú mörk en tókst ekki. Þrátt fyrir góða baráttu og fína markvörslu Björgvins síðasta korterið þá tókst Frökkum að landa sigrinum án teljandi erfiðleika. 

Rúnar bætti við þremur mörkum með skotum utan af velli í síðari hálfleik og skoraði alls 7 mörk. Hann var markahæstur og skoraði glæsileg mörk hjá Omeyer í leiknum. Rúnar þarf að skjóta af löngu færi þegar Arons Pálmarssonar nýtur ekki við og það gerði Rúnar í dag og í mótinu öllu. Eins og áður fengu yngri mennirnir að spreyta sig, þótt komið væri í útsláttarkeppnina. Bjarki Már, Janus, Ómar og Arnar Freyr sýndu allir fína takta þótt þeir gerðu einnig sín mistök. En mikil reynsla fyrir þá að taka þátt í svona leik. 

Leiksins verður meðal annars minnst fyrir að hann fór fram á fótboltavelli í Lille fyrir framan 28 þúsund áhorfendur. Stemningin var gríðarlega góð og gerði Íslendingum ekki auðveldara fyrir. 

Frakkland varð í efsta sæti í A-riðli á meðan Ísland tryggði sér þátttökurétt í 16-liða úrslitum keppninnar með því að hafna í fjórða sæti B-riðils. 

Frakkland er ríkjandi heimsmeistari í handbolta karla, en liðið hampaði titlinum þegar keppnin fór fram í Katar árið 2015. Frakkar báru sigur úr býtum gegn Katar í úrslitaleik keppninnar.  

Frakkland 31:25 Ísland opna loka
60. mín. Nedim Remili (Frakkland) skoraði mark
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert