„Mun aldrei gleyma þessum leik“

Janus Daði ásamt Björgvini Páli Gústavssyni og Arnari Frey Arnarssyni.
Janus Daði ásamt Björgvini Páli Gústavssyni og Arnari Frey Arnarssyni. AFP

„Það var æðislegt að fá að taka þátt í þessum leik og honum mun ég aldrei gleyma,“ sagði hinn ungi Janus Daði Smárason við mbl.is eftir tapið gegn Frökkum í 16-liða úrslitunum á HM í handknattleik í Lille í Frakklandi í kvöld.

„Það er ömurlegt að fá ekki fleiri svona leiki. Við sýndum á þessu móti að þótt allir okkar leikmenn séu ekki að spila í Meistaradeildinni þá eigum við fullt erindi í þessi lið. Við þurfum að fá að spila okkur aðeins betur saman. Við vorum fjórir nýir á þessu móti og nú erum við komnir með stórmót í farteskið,“ sagði Janus Daði sem fékk að spreyta sig með landsliðinu á stóra sviðinu í fyrsta sinn á þessu heimsmeistaramóti.

„Ég dreg mikinn lærdóm af þessu móti. Ég get farið á koddann í kvöld og hugsað ef og hefði þetta og ef og hefði hitt. Þetta er vonandi ekki mitt fyrsta og síðasta stórmót. Vonandi er þetta bara byrjunin á einhverju stærra. Það er mikið stolt að spila undir merkjum HSÍ og Íslands og nú er bara næst á dagskrá að komast inn á næsta stórmót sem verður eftir ár,“ sagði Janus Daði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert