Spánn og Slóvenía í 8-liða úrslit

Joan Canellas skorar gegn Brasilíu í kvöld.
Joan Canellas skorar gegn Brasilíu í kvöld. AFP

Spánverjar og Slóvenar tryggðu sér í kvöld sæti í 8-liða úrslitum heimsmeistaramótsins í handknattleik, en báðar þjóðirnar voru í riðli Íslands í riðlakeppninni.

Spánverjar, sem unnu alla leiki sína í riðlinum, lentu í honum kröppum gegn Brasilíu. Brasilíumenn voru yfir í hálfleik, 18:16, og var síðari hálfleikurinn stál í stál.

Jafnt var þegar fimm mínútur voru eftir, en tvö mörk Spánverja þegar skammt var eftir dugðu þeim til sigurs þrátt fyrir að Brasilíumenn hefðu átt lokaorðið. Lokatölur 28:27 fyrir Spánverja.

Alex Dujshebaev og Joan Canellas skoruðu báðir fimm mörk fyrir Spánverja, sem mæta annaðhvort Króötum eða Egyptum í 8-liða úrslitunum.

Slóvenar mættu Rússum og þeir höfðu yfirhöndina allan tímann. Átta mörkum munaði í hálfleik, 19:11, og unnu Slóvenar að lokum sex marka sigur 32:26.

Darko Cingesar skoraði úr öllum sex skotum sínum fyrir Slóvena, en þeir mæta annaðhvort Þjóðverjum Dags Sigurðssonar eða liði Katar í 8-liða úrslitunum.

Slóvenar fagna sætinu í 8-liða úrslitum.
Slóvenar fagna sætinu í 8-liða úrslitum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert