„Danskar hamfarir“

Guðmundur Guðmundsson situr svekktur eftir.
Guðmundur Guðmundsson situr svekktur eftir. AFP

Guðmundur Guðmundsson, þjálfari danska karlalandsliðsins í handknattleik, á að segja af sér að mati Jan Jensen, fréttamanns Extrabladet. 

Danir féllu úr leik í 16-liða úrslitum heimsmeistaramótsins í Frakklandi eftir 27:25 tap gegn Ungverjum í dag og eins og við var að búast voru danskir fjölmiðlar allt annað en sáttir. 

Leikurinn var síðasti leikur Guðmundar með Dönum á stórmóti en hann á eftir að stýra þeim í leikjum í undankeppni EM, áður en hann hættir með liðið og Nicolaj Jacobsen tekur við. 

Jensen er ekki sérstaklega ánægður með það og vill hann að Guðmundur segi umsvifalaust af sér, hann á þó ekki von á því enda segir hann Guðmund vera þrjóskan mann. Jensen bætir svo við að Guðmundur hafi ekki náð því besta út úr liðinu, þrátt fyrir að hafa unnið gull á Ólympíuleikunum í Ríó í sumar. 

Fyrirsögn Extrabladet um leikinn er einfaldlega „Danskar hamfarir“ og er ljóst að danska þjóðin er slegin eftir tapið óvænta. „Partýið var búið áður en það byrjaði,“ er svo bætt við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert