Fólk stendur saman í handboltaheiminum

Rene Toft Hansen í faðmi tveggja leikmanna Barein.
Rene Toft Hansen í faðmi tveggja leikmanna Barein. AFP

Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari Danmerkur, segir það ekki hafa komið sér á óvart að Ungverjar skyldu leyfa Dönum að tefla hinum öfluga línumanni René Toft Hansen fram í dag þegar þjóðirnar mætast í 16-liða úrslitum HM í handbolta í Frakklandi.

René Toft spilar með sérstaka olnbogahlíf sem Alþjóðahandknattleikssambandið hefur ekki verið alveg tilbúið að samþykkja. Eftir að leikmanninum hafði verið bannað að spila í fyrsta leik mótsins ákvað sambandið hins vegar að honum yrði leyft að spila svo lengi sem andstæðingar Danmerkur samþykktu það.

Frétt mbl.is: Sannfæringarkraftur Guðmundar skilaði árangri

Egyptaland, Katar, Barein og Svíþjóð leyfðu öll Dönum að tefla René Toft fram í riðlakeppninni, og hið sama má segja um Ungverjaland nú þegar útsláttarkeppnin er tekin við:

„Ég er mjög ánægður og þakklátur yfir því að þeir skuli vera svona sanngjarnir, eins og aðrir hingað til. Ég er virkilega ánægður. Þetta eru góðar fréttir,“ sagði Guðmundur, en hafði hann áhyggjur af því að fá ekki samþykki?

„Nei, þær hafði ég ekki. Ég hef ekki hugsað svo mikið um þetta. Ég var viss um að þeir myndu gefa honum færi á að spila. Fólk stendur saman í handboltaheiminum,“ sagði Guðmundur við TV 2.

Leikur Danmerkur og Ungverjalands hefst kl. 15 í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert