„Liðið í góðum höndum hjá Geir“

Dagur Sigurðsson.
Dagur Sigurðsson. AFP

„Það var ekki gaman að enda með liðið á þennan hátt,“ sagði Dagur Sigurðsson, þjálfari þýska landsliðsins, við mbl.is eftir ósigur sinna manna gegn Katar í 16-liða úrslitunum á HM í handknattleik í París í kvöld.

Þar með eru þrír íslenskir þjálfarar fallnir úr leik með lið sín á mótinu en hin tvö eru Íslendingar undir stjórn Geirs Sveinssonar og Danir undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar. Einn er hins vegar eftir en það er Kristján Andrésson og hans menn tryggðu sér í dag sæti í 8-liða úrslitunum með stórsigri gegn Hvít-Rússum.

„Við erum búnir að vera á góðri siglingu og unnum tvenn verðlaun á stórmótum í fyrra en svona getur líka farið. Við byrjuðum leikinn mjög vel og vorum komnir í góða stöðu um miðjan seinni hálfleik, þá fjórum mörkum yfir. Það voru nokkrar ákvarðanir sem urðu til þess að við misstum niður dampinn. Þetta er sjokk því við ætluðum okkur lengra á þessu móti,“ sagði Dagur við mbl.is en þetta var síðasti leikur þýska landsliðsins undir stjórn Dags en í næsta mánuði tekur hann til starfa sem landsliðsþjálfari Japans.

Nú er Kristján okkar maður

„Tap Dana kom mér á óvart en ég sá samt Ungverja mikið fyrir mótið þar sem við mættum þeim í fyrsta leik og ég sá þar að þeir voru í toppstandi. Þeir reyndust okkur erfiðir en þeir misstu svo aðeins flugið þegar þeir misstu Nagy í meiðsli en hann sneri aftur inn í liðið þeirra í dag. Nú er Kristján okkar maður núna og nú hoppar maður á þann vagn,“ sagði Dagur.

Spurður hvort hann hafi eitthvað náð að sjá til íslenska liðsins á HM sagði Dagur;

„Nei ég sá því miður engan leik með því en ég sá það í leikjunum fyrir mótið og ég fylgdist með umfjöllun um það á mótinu. Það er jákvæðir straumar í kringum liðið og mér finnst liðið í góðum höndum hjá Geir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert