Ósanngjarnt að spyrja að þessu

Guðmundur Guðmundsson hrópar inn á völlinn í leiknum gegn Katar …
Guðmundur Guðmundsson hrópar inn á völlinn í leiknum gegn Katar í kvöld. AFP

Guðmundur Guðmundsson kveðst aldrei hafa orðið jafnvonsvikinn eftir handboltaleik eins og í dag en nefndi þó eitt tap íslenska landsliðsins sem hefði valdið honum viðlíka vonbrigðum.

Guðmundur og hans menn í danska landsliðinu eru úr leik á HM karla í handbolta eftir tap gegn Katar í dag í 16-liða úrslitum. Tólf ár eru síðan Danmörk féll svo snemma úr leik á stórmóti. Á vef Ekstra Bladet er Guðmundur hvattur til að segja af sér en hann hyggst stýra ólympíumeistaraliði sínu til sumars eins og samningur hans segir til um. Fram að því eru tveir leikir á dagskrá í undankeppni EM.

„Af síðustu 14 leikjum höfum við unnið 13. Ég verð að skoða þetta,“ sagði Guðmundur við Ekstra Bladet. Spurður hvort tapið í dag væru mestu vonbrigði hans á ferlinum sagði Guðmundur svo vera, en rifjaði upp tapið með íslenska landsliðinu í 8-liða úrslitum Ólympíuleikanna í London 2012, sem var einnig gegn Ungverjum.

„Já, ég upplifði nokkuð þessu líkt árið 2012. Á móti sama andstæðingi ... Það er erfitt að finna einhver orð núna,“ sagði Guðmundur. Spurður hvort hann ætlaði að hætta nú þegar sem landsliðsþjálfari Danmerkur svaraði hann:

„Nei, ég hef ekki hugsað mér það. Það er hálfósanngjarnt að spyrja að þessu! En ég veit að það er sígilt að gera það í svona stöðu. Ég vil ekki tala um þetta núna,“ sagði Guðmundur og kvaðst staðráðinn í að standa við sinn samning.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert