Frakkar spila til úrslita á heimavelli

Dika Mem, Michael Guigou og Nikola Karabatic fagna í kvöld.
Dika Mem, Michael Guigou og Nikola Karabatic fagna í kvöld. AFP

Gestgjafar og ríkjandi heimsmeistarar Frakka munu spila til úrslita á heimsmeistaramótinu í handknattleik á sunnudag, en það var ljóst eftir að Frakkland lagði Slóveníu í fyrri undanúrslitaleiknum í kvöld, 31:25.

Frakkar höfðu yfirhöndina lengst af í leiknum en Slóvenar voru þó aldrei langt undan. Staðan í hálfleik var 15:12 fyrir Frakka, en þeir bættu í eftir hlé og náðu mest sex marka forystu, 25:19.

Þegar fimm mínútur voru eftir munaði fjórum mörkum á liðunum, 28:24, og þann mun náðu Slóvenar aldrei að brúa. Lokatölur 31:25 fyrir ríkjandi meistara Frakka.

Nedim Remili var markahæstur hjá Frökkum í kvöld með sex mörk og Valentin Porte skoraði fimm. Hjá Slóvenum skoraði Jure Dolenec fimm mörk.

Frakkar mæta annaðhvort Noregi eða Króatíu í úrslitaleik í París á sunnudag, en síðari undanúrslitaleikurinn fer fram annað kvöld. Bronsleikurinn fer fram á laugardag.

Daniel Narcisse og Darko Cingesar eigast við í kvöld.
Daniel Narcisse og Darko Cingesar eigast við í kvöld. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert