Sigur fyrir handboltann ef Noregur fer í úrslit

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari karlaliðs FH, hefur hrifist af leik …
Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari karlaliðs FH, hefur hrifist af leik króatíska landsliðsins á HM. AFP

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari karlaliðs FH í handknattleik, hefur eins og margir starfsbræður hans fylgst grannt með heimsmeistaramótinu í handknattleik sem nú stendur yfir í Frakklandi. Framundan eru undanúrslitaleikir mótsins. Í kvöld eigast við Frakkar og Slóvenar í fyrri viðureign undanúrslitanna og annað kvöld leiða Norðmenn og Króatar saman hesta sína.

Halldór segir Norðmenn hafa komið sér á óvart á mótinu. Hann hafi afskrifað þá fyrirfram. Hinsvegar yrði það sigur fyrir handboltann ef norska liðið leikur til úrslita en að sama skapi telur Halldór að það yrði kannski auðveldur úrslitaleikur fyrir franska landsliðið sem hann telur eiga heimsmeistaratitilinn næsta vísan.

Halldór segir heimsmeistaramótið hafa verið skemmtilegt. Auk óvæntra úrslita þá hafi íþróttin þróast vel. Dregið hafi úr vægi kerfisbundins leiks og í staðinn hafi komið árásargjarn leikur þar sem sterkir einstaklingar fái notið sín, ráðið ferðinni, maður gegn manni líkt og Frakkar hafa leikið um langt skeið.

Kynslóðaskipti hjá mörgum

„Mér finnst mótið hafa verið mjög gott að ýmsu leyti. Þau lið sem leikið hafa einna skemmtilegasta handknattleikinn eru komin lengst. Viðureign Frakka og Svía var feikilega skemmtileg þar sem Svíarnir voru síst lakari. Frakkar hafa meiri reynslu og unnu á henni í lokin auk þess að hafa 28 þúsund áhorfendur með sér,“ segir Halldór þegar Morgunblaðið spurði hann út í mótið.

„Það jákvæða við mótið er að það eru margir ungir leikmenn að koma fram á sjónarsviðið. Kynslóðaskipti eru að eiga sér sér stað í mörgum liðum og má þar nefna Króatíu, Slóveníu, Pólland, Norðmenn og Svía svo dæmi sé tekið. Fleiri landslið má nefna þar sem meiri reynsla er kannski fyrir hendi en leikmenn ungir og hluti af nýrri kynslóð handknattleiksmanna,“ segir Halldór.

Króatíska liðið er til dæmis byggt upp í kringum Domagoj Duvnjak. Hann hefur reyndar ekki getað beitt sér af krafti vegna meiðsla. En með honum er hörkuskemmtilegir ungir leikmenn. Þeir leika léttan og árásargjarnan handbolta sem ég er mjög hrifinn af. Þeir hafa Jakov Gujon og Zeljko Musa í miðri vörninni.

Króatar eru alltaf skynsamir í sínum leik þótt aðeins hafi borið á hinu gagnstæða undir lokin á viðureigninni við Spánverja á þriðjudagskvöldið.

Vegna þess tel ég að viðureign Króata og Norðmanna í undanúrslitum verði mjög áhugaverð. Ekki síst vegna þess að Norðmenn töpuðu illa fyrir Króötum í viðureigninni um bronsið á EM fyrir ári, 31:24. Norðmenn eiga harma að hefna. Þeir hafa leikið mjög vel allt mótið þar sem Sandor Sagosen hefur verið í aðalhlutverki sem leikstjórnandi. Auk þess hefur norska liðið klókan þjálfara, Christian Berge, sem hefur náð að búa til góð liðsheild. Hann virðist ná mjög vel til leikmanna sem líta á hann sem foringja.

Ég hafði enga trú á að Norðmenn færu eins og langt og raun ber vitni að þessu sinni. Eftir að þeir komust í undanúrslit á EM í fyrra þá taldi ég víst að þeir næðu sér ekki á flug á HM. Raunin hefur verið allt önnur. Norðmenn hafa mjög vel skipað lið með mörgum ungum hraustum leikmönnum. Þeir leika nútímalegan og mjög skemmtilegan handbolta,“ segir Halldór, og sömu sögu megi segja um landslið Slóvena og Króata svo dæmi sé tekið.

Viðtalið við Halldór Jóhann má lesa í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun. 

Halldór Jóhann Sigfússon.
Halldór Jóhann Sigfússon. mbl.is/Eva Björk
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert