Norðmenn í úrslit í fyrsta sinn

Torbjörn Bergerud, markvörður Noregs, tryggði liðinu framlengingu með því að …
Torbjörn Bergerud, markvörður Noregs, tryggði liðinu framlengingu með því að verja víti á lokasekúndu venjulegs leiktíma. AFP

Norðmenn leika til úrslita um heimsmeistaratitil karla í handbolta gegn Frökkum á sunnudag, eftir sigur á Króötum í framlengdum leik í kvöld. Það verður fyrsti úrslitaleikur Noregs á stórmóti í handbolta karla.

Staðan var 22:22 eftir venjulegan leiktíma, eftir að Króatar klúðruðu víti á lokasekúndunni, en í framlengingunni reyndust Norðmenn sterkari og unnu að lokum þriggja marka sigur, 28:25.

Króatar byrjuðu betur, léku þétta vörn og staðan var 3:1 eftir tíu mínútna leik. Þá fór Norðmönnum að ganga betur að leika hratt og með fjórum mörkum í röð tókst þeim að komast yfir, 7:6, á 17. mínútu. Norðmenn komust svo mest þremur mörkum yfir í fyrri hálfleiknum en staðan í hálfleik var 12:10 þeim í vil.

Seinni hálfleikur var hnífjafn og spennandi. Liðin skiptust á að hafa forystuna en miklu munaði fyrir Króata í seinni hálfleik að Ivan Pesic átti stórleik í markinu eftir að hafa leyst Ivan Stevanovic af hólmi. Pesic varði yfir 40% skota sem hann fékk á sig

Norðmenn tóku leikhlé þegar rúm mínúta var til leiksloka og Sander Sagosen jafnaði metin í 22:22 þegar 50 sekúndur voru eftir. Með góðri lokasókn, frábærri línusendingu Domagoj Duvnjak, tókst Króötum að fá vítakast á lokasekúndu leiksins. Zlatko Horvat tók vítið en Torbjörn Bergerud varði og tryggði Noregi framlengingu.

Króatar unnu 31:24 í bronsleiknum á EM fyrir ári síðan og því má segja að Norðmenn hafi náð fram hefndum í kvöld. Króatía leikur við Slóveníu um bronsverðlaunin á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert