Frakkar heimsmeistarar á heimavelli

Frakkar fagna heimsmeistaratitlinum.
Frakkar fagna heimsmeistaratitlinum. AFP

Frakkar eru heimsmeistarar í handknattleik karla, eftir 33:26 sigur á Norðmönnum í úrslitaleik heimsmeistaramótsins í París í dag. Frakkar vörðu þar með titilinn, en þeir urðu heimsmeistarar í Katar fyrir tveim árum. 

Norðmenn fóru betur af stað í leiknum og voru þeir með 14:11 forystu þegar skammt var eftir af fyrri hálfleik. Frakkar kláruðu fyrri hálfleikinn hins vegar af miklum krafti og komust þeir í 18:17 í síðustu sókn hálfleiksins. Það var í fyrsta skipti síðan í stöðunni 2:1 sem Frakkar voru yfir í leiknum. 

Frakkar voru síðan mun betri í seinni hálfleiknum og var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi lenda. Frakkar urðu einnig heimsmeistarar síðast er keppt var í Frakklandi, árið 2001, og hafa þeir orðið heimsmeistarar alls sex sinnum. 

Frakkland hefur alls unnið ellefu stórmót, sem er magnaður árangur. 

Nikola Karabatić skoraði sex mörk fyrir Frakka, Kentin Mahe, Michael Guigou og Valentin Porte skoruðu fimm mörk hver. Kent Robin Tønnesen skoraði mest Norðmanna, fimm mörk. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert