Mæta á HM með fleiri leikmenn en aðrir

Sameiginlegt lið Kóreu sem leikur á HM 2019.
Sameiginlegt lið Kóreu sem leikur á HM 2019. Ljósmynd/Handknattleikssamband Kóreu

Lið Kóreu fær að mæta til leiks með fleiri leikmenn en önnur lið á heimsmeistaramót karla í handknattleik sem hefst í Þýskalandi og Danmörku á fimmtudaginn kemur, 10. janúar. Tuttugu leikmenn skipa leikmannahópinn en ekki sextán eins og hjá öðrum liðum á mótinu.

Ástæðan er sú að grannríkin tvö á Kóreuskaganum, Suður-Kórea og Norður-Kórea, sem tæknilega séð hafa enn ekki bundið endi á styrjöldina sem hófst þar í upphafi sjötta áratugs síðustu aldar, tefla fram sameiginlegu liði á mótinu.

Það er liður í viðleitni nágrannaríkjanna til að stuðla að bættum samskiptum þeirra á milli og framhald af samstarfi þeirra í fleiri íþróttagreinum á allra síðustu árum.

Suður-Kórea vann sér keppnisrétt á HM með því að enda í þriðja sæti á Asíumeistaramótinu 2018 og hefur átt lið á tólf heimsmeistaramótum. Besta árangri náði liðið á HM í Japan árið 1997 þegar það endaði í 8. sæti. Þá hlaut Suður-Kórea silfurverðlaun á Ólympíuleikunum á sínum heimavelli árið 1988 og endaði í 5. sæti á leikunum í Barcelona fjórum árum síðar.

Norður-Kórea hefur hins vegar aldrei komist neitt áleiðis í handboltanum þrátt fyrir aðild að IHF, Alþjóðahandknattleikssambandinu, frá 1954 þar til liðið fékk bronsverðlaun í keppni smærri handboltaþjóða Asíu, Álfukeppni IHF, í Taílandi árið 2017. Þá hafa yngri landslið Norður-Kóreu sótt í sig veðrið á allra síðustu árum.

Til að liðka til fyrir samstarfi þjóðanna og sjá til þess að lið Kóreu yrði ekki veikara með því að tefla fram sameiginlegu liði, ákvað IHF að 20 manna hópur yrði niðurstaðan. Hann skipa sextán leikmenn frá Suður-Kóreu og fjórir frá Norður-Kóreu.

Notum handboltann til að senda friðarkveðju

„Okkar stærsta markmið á mótinu er ekki hver úrslit leikja okkar verða, heldur að sýna heiminum þann einstaka liðsanda sem ríkir í okkar liði. Sigrar okkar verða fólgnir í því að snerta hjörtu allra handboltaáhugamanna og nota handboltann til að senda heiminum friðarkveðju frá Kóreuskaganum,“ segir John Yoon, yfirmaður alþjóðasamskipta hjá handknattleikssambandi Suður-Kóreu, á vef IHF.

Liðið fær heldur betur erfið verkefni því það er í firnasterkum A-riðlinum og mætir gestgjöfum Þýskalands í upphafsleik keppninnar í Berlín á fimmtudagskvöldið. Síðan leikur það við Rússa, Frakka, Serba og Brasilíumenn en þarf væntanlega að því loknu að spila um sæti á bilinu 17 til 24 á mótinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert