Þjóðsöngurinn hljómaði til enda

Íslendingar gátu sungið með þjóðsöngnum frá upphafi til enda fyrir …
Íslendingar gátu sungið með þjóðsöngnum frá upphafi til enda fyrir leikinn við Spánverja í Ólympíuhöllinni í München í kvöld. AFP

„Við fórum í þennan slag til að vinna,“ sagði Guðmundur B. Ólafsson, formaður Handknattleikssambands Íslands, glaður í bragði þegar mbl.is hitti hann að máli eftir að þjóðsöngur okkar Íslendinga var leikinn frá upphafi til enda fyrir viðureign Íslands og Spánar á HM í handknattleik karla í Ólympíuhöllinni í München í kvöld.

Á föstudaginn var klippt aftan af þjóðsöngnum fyrir viðureignina við Króata og mótmæltu Guðmundur og félagar hans framkomu mótshaldara í garð Íslendinga og þjóðsöngsins. Sendu þeir inn formlega kvörtun vegna framkvæmdar leiksins. Síðar baðst mótsstjóri afsökunar á atvikinu en bar við þröngum tímaramma í undanfara leikjanna.

Guðmundur fundaði með mótshöldurum í gær og varð niðurstaðan sú að þjóðsöngur Íslands er leikinn frá upphafi til enda þótt hann fari ríflega fram úr þeim tímamörkum sem ætlað er til að leika þjóðsöngva fyrir hverja viðureign á HM.

Guðmundur sagði í viðtali við mbl.is að hann hefði aldrei gefið tommu eftir af kröfu sinni og það hefði leitt til þessarar farsælu niðurstöðu þótt vissulega sé útgáfan sem leikin var í kvöld aðeins hraðari en hefðbundin útgáfa þjóðsöngsins er. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert