Það var einhver ólund í þeim

Kári Kristján Kristjánsson, lengst til vinstri, í leiknum í kvöld.
Kári Kristján Kristjánsson, lengst til vinstri, í leiknum í kvöld. AFP

Eyjamaðurinn Kári Kristján Kristjánsson lék sinn fyrsta leik á HM í handbolta í Egyptalandi er Ísland mátti þola 26:28-tap fyrir Frakklandi í öðrum leik í milliriðli í dag. Eftir úrslitin er ljóst að Ísland getur ekki farið í átta liða úrslitin. Þrátt fyrir tapið var Kári ánægður með kafla úr leiknum. 

„Við vorum í þessu allan tímann og strákarnir voru flottir. Það var mikil ákefð í þessu hjá okkur og við spiluðum fantavörn. Í lokin þá köstuðum við þessu aðeins frá okkur, en við vorum að spila á móti mjög sterku liði,“ sagði Kári við mbl.is. 

Ísland var tveimur mörkum yfir um miðjan seinni hálfleikinn en Frakkar voru betri á lokasprettinum. „Það er stutt á milli í þessu. Þeir voru 13:10 yfir í fyrri hálfleik og þá vorum við snöggir að koma til baka. Þetta er fljótt að breytast í þessu og á móti svona góðu liði.“

Íslenska liðið virtist ekki sátt við spænska dómara leiksins og Guðmundur Guðmundsson og einhverjir leikmenn vildu ræða við þá eftir leik. 

„Mér fannst þeir eitthvað stífir. Það var einhver ólund í þeim. Mér fannst heilt yfir ekki nægilega mikið samræmi í sömu atriðum báðum megin. Þeir eiga hins vegar að vera eitt besta parið í heiminum,“ sagði Kári. 

Ísland leikur við Noreg á sunnudaginn kemur í lokaleik sínum í milliriðli. „Við verðum að gefa þeim leik og sýna baráttuna áfram. Við ferðuðumst alla leið til Egyptalands og við viljum ná alvöruhandboltaleik,“ sagði Kári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert