Tap fyrir Noregi í lokaleiknum

Sigvaldi Björn Guðjónsson reynir skot að marki Norðmanna í dag.
Sigvaldi Björn Guðjónsson reynir skot að marki Norðmanna í dag. AFP

Ísland tapaði fyrir Noregi, 33:35, í lokaleik liðsins á HM karla í handbolta í Egyptalandi í dag. Ísland tapaði öllum þremur leikjunum í milliriðli og fimm leikjum af sjö alls og fagnaði tveimur sigrum. 

Ísland byrjaði betur og var yfir fyrstu mínúturnar en Norðmenn svöruðu og komust þremur mörkum yfir, 11:8. Ísland neitaði hins vegar að gefast upp og jafnaði í 17:17 og var staðan í hálfleik jöfn, 18:18.

Eins og tölurnar gefa til kynna voru sóknir beggja liða betri en varnirnar og var skemmtilegt að sjá góðan íslenskan sóknarleik. Hinum megin spiluðu Norðmenn mjög hraðan og góðan sóknarleik sem íslenska vörnin réð illa við og var því mikið skorað.

Norðmenn byrjuðu betur í seinni hálfleik og komust aftur þremur mörkum yfir snemma í honum, 25:22. Munurinn varð fjögur mörk í fyrsta skipti skömmu síðar, 27:23. Munurinn varð mestur fimm mörk en íslenska liðið gafst ekki upp og var staðan 31:29 þegar skammt var eftir og svo eitt mark, 32:31, þegar fjórar mínútur voru eftir.

Norðmenn voru hins vegar sterkari í blálokin og tryggðu sér sigur.

Bjarki Már Elísson skoraði sex mörk fyrir íslenska liðið, Ólafur Andrés Guðmundsson fimm og þeir Gísli Þorgeir Kristjánsson, Elliði Snær Viðarsson og Ómar Ingi Magnússon fjögur mörk hvor. Sander Sagosen skoraði átta mörk fyrir Noreg. 

Ísland 33:35 Noregur opna loka
60. mín. Noregur tekur leikhlé 47 sekúndur eftir og Norðmenn vilja ræða málin.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert