Sætur sigur á Portúgal í fyrsta leik

Ísland fer glæsilega af stað á HM karla í handbolta en íslenska liðið vann sterkan 30:26-sigur á því portúgalska í fyrsta leik sínum í D-riðli. Leikið er í Kristianstad í Svíþjóð.

Ísland er því komið með tvö stig, eins og Ungverjaland. Þrjú efstu liðin í riðlinum fara áfram í milliriðil.

Ísland byrjaði betur og var skrefinu á undan framan af. Ísland komst tveimur mörkum yfir í fyrsta sinn í stöðunni 4:2 og náði mest fjögurra marka mun í hálfleiknum, 6:2 og 7:3.

Þá kom góður kafli hjá Portúgal, sem jafnaði í 7:7. Í kjölfarið tók Guðmundur Guðmundsson leikhlé og við það batnaði sóknarleikur íslenska liðsins til muna og var Ísland með 11:9-forskot þegar tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik.

Portúgal var hins vegar sterkara liðið í lok hálfleiksins og íslenska liðið fór stundum illa með góð færi til að auka muninn. Var því allt hnífjafnt eftir fyrri hálfleik, 15:15.

Íslenska liðinu gekk illa að stöðva Pedro Portela, sem skoraði sjö mörk í fyrri hálfleik. Ómar Ingi Magnússon var með fimm fyrir Ísland og Bjarki Már Elísson þrjú.

Ísland var með betri markvörslu í fyrri hálfleik, því Björgvin Páll Gústavsson varði níu skot í markinu gegn fimm hjá Portúgal. Tapaðir boltar í sókninni reyndust hins vegar dýrkeyptir og því var jafnt þegar hálfleiksflautan gall.

Íslenska liðið var snöggt að ná undirtökunum enn á ný í upphafi seinni hálfleiks og var skrefi á undan framan af í honum. Þegar 18 mínútur voru eftir fékk Fábio Magalhaes í liði Portúgals rautt spjald fyrir mjög ljótt brot á Ómari Inga og Bjarki Már skoraði úr vítinu sem fylgdi og kom Íslandi þremur mörkum yfir, 21:18.

Rétt eins og í fyrri hálfleik neitaði portúgalska liðið að gefast upp og þegar seinni hálfleikur var rétt rúmlega hálfnaður munaði aftur aðeins einu marki, 22:21 og skömmu síðar var allt jafnt, 22:22.

Jafnræðið hélt áfram næstu mínútur og var staðan 24:24, þegar rúmar átta mínútur voru eftir. Þá tók Guðmundur leikhlé og Ísland komst tveimur mörkum yfir í kjölfarið, 26:24, þegar fimm mínútur voru eftir og svo þremur þegar þrjár og hálf voru eftir, 27:24. 

Íslendingar reyndust svo of sterkir fyrir Portúgali á lokakaflanum og sigldi sætum sigri í hús, en afar mikil orka fór í leikinn hjá báðum liðum. 

Bjarki Már Elísson var markahæstur hjá Íslandi með níu mörk, Ómar Ingi Magnússon skoraði sjö og Elliði Snær Viðarsson fjögur. Björgvin Páll Gústavsson varði 13 skot í markinu. Pedro Portela skoraði átta fyrir Portúgal.

Næsti leikur Íslands er gegn Ungverjalandi á laugardag klukkan 19:30.

Synir Íslands eru vefþættir sem framleiddir eru af Studio M en í þáttunum eru lykilmenn íslenska liðsins heimsóttir. Hægt er að horfa á þættina með því að smella hér.

Ísland 30:26 Portúgal opna loka
60. mín. Aron sækir aukakast þegar það eru 48 sekúndur eftir af þessum leik. Þetta er að hafast. Það er rosaleg stemning hjá íslensku stuðningsmönnunum.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert