Akureyringar skoruðu 66 mörk um helgina

SA Ásynjur eru ríkjandi Íslandsmeistarar og skoruðu 50 mörk um …
SA Ásynjur eru ríkjandi Íslandsmeistarar og skoruðu 50 mörk um helgina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það má með sanni segja að kvennalið Skautafélags Akureyrar í íshokkíi hafi látið mörkunum rigna í Hertz-deildinni um helgina. Í þeim þremur leikjum sem fram fóru skoruðu Ásynjur og Ynjur samtals 66 mörk og fengu aðeins fjögur á sig.

Ásynjur, sem er skipaðar eldri leikmönnum SA, mættu SR tvívegis í Laugardalnum. Það má segja að einstefna sé vægt til orða tekið, en leikirnir fóru 25:1 á laugardag og 25:0 í gær.

Í leiknum á laugardag var staðan 14:1 strax eftir fyrsta leikhluta og tónninn heldur betur gefinn. Á sunnudag var það hins vegar síðasti leikhlutinn sem var fjörugastur þar sem Ásynjur settu 10 mörk. Birna Baldursdóttir var markahæst með samtals 16 mörk, 9 mörk á laugardag og 7 mörk í gær.

Ynjur, unglingalið SA, fengu Björninn í heimsókn norður og unnu öruggan sigur, 16:3. Staðan var 6:1 eftir fyrsta hluta, en Ynjur skoruðu svo sjö mörk í síðasta leikhlutanum og uppskáru 13 marka sigur. Sunna Björgvinsdóttir og Silvía Björgvinsdóttir voru markahæstar með 5 mörk hvor, auk þess sem Silvía lagði upp önnur sex.

Aðeins er einn leikur eftir af deildarkeppninni, en SR og Ynjur mætast á morgun. Ásynjur hafa þegar tryggt sér titilinn, eru með 33 stig á toppnum og töpuðu aðeins einum leik. Ynjur koma næstar með 24 stig. Þau lið munu sameinast undir merkjum SA og mæta Birninum sem er í þriðja sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert